Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 12:07:53 (90)

2000-10-05 12:07:53# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[12:07]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt ef hv. 5. þm. Norðurl. v. hefur fundið út að það væru tveir flokkar í ríkisstjórn. Hins vegar erum við ekki alveg sammála um þetta mál þrátt fyrir að við séum e.t.v. sammála um það skilyrði sem ég var að setja upp áðan. Við höfum rætt í fullri alvöru um sölu Landssímans en ég heyri að hv. þm. vill hafa hann í ríkiseigu áfram. Ég tel mikil vandkvæði á því vegna tæknibreytinga og þróunar í samfélaginu. Þessi mál hafa verið til umræðu á milli flokkanna og ég hef ekkert heyrt um það að samstarfsflokkurinn hafi hafnað skilyrði okkar að þessu leyti. Þessi mál eru í vinnslu og ég vonast til að niðurstaða fáist í þetta mál. Hvort hún fæst í mars eða hvenær það verður, hver er hin opinbera dagsetning eins og hv. þm. orðaði það um skýrslu sveitarfélaganefndar, vil ég ekki segja um. En það er verið að vinna að þessum málum og ég held að þau séu alveg í eðlilegum farvegi.