Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 12:26:56 (94)

2000-10-05 12:26:56# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[12:26]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði þessa ágætu ræðu. Þar var kveðið á um að auka þyrfti og efla flesta þá hluti sem eru til umræðu.

En málið er einmitt þetta: Ef við ætlum að styrkja íslenskt atvinnulíf og styrkja samkeppnishæfni þess skiptir öllu máli að auka ekki tilkostnað innan lands. Standa í vegi fyrir því, gera allt sem við getum til þess. Lögmálið er eitt og óumbreytanlegt. Framleiðslukostnaður fer alltaf upp í eyðslustig samfélagsins. Þess vegna verðum við að verja þetta, þess vegna verðum við að koma í veg fyrir þensluna og aukninguna. Það er verkefnið. Við höfum nefnilega mjög góða afkomu hjá ríkissjóði, það gerir okkur kleift að vinna þessa vinnu og það er ljóst hvernig við eigum að gera það. Það liggur fyrir á næstu árum hvernig við getum styrkt íslenskt efnahagslíf, hvernig við getum unnið gegn viðskiptahallanum. Við getum unnið það með því að styrkja umhverfi atvinnulífisins, með því að lækka gjöld á atvinnurekstrinum, gera atvinnurekstrinum kleift að standa undir áframhaldandi velferð og áframhaldandi batnandi kjörum landsins.