Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 12:30:10 (96)

2000-10-05 12:30:10# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., SvH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[12:30]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þingmenn Frjálslynda flokksins eiga ekki sæti í fjárln. og hafa því ekki eins og aðrir þingflokkar tök á að fylgjast með og þæfa innihald fjárlagafrv. og kann ræða mín að bera keim af því. Hins vegar hefur formaður þingflokksins fengið tök á að sitja sem áheyrnarfulltrúi á fundum nefndarinnar þessa viku og er það góðra gjalda vert og við munum reyndar fara fram á það að fá áheyrnarfulltrúa um lengri hríð í framtíðinni.

Ég tek undir árnaðaróskir og hamingjuóskir til hæstv. fjmrh. vegna fjárlagafrv. að því leyti að það ber keim af góðærinu og þar er um greiðsluafgang að tefla. Hins vegar er frá því að segja að lofsöngur stjórnarliðanna sjálfra um afkomu ríkissjóðs og allt hvað eina sem þeir taka til hendi við er þannig að það setur blátt áfram að manni ugg, að hér sé ekki allt með felldu þar sem þeir telja sig þurfa á því að halda jafnóðum að sópa út af borðinu öllum aðvörunarorðum sem til þeirra eru mælt.

Þegar hæst stóð í stönginni um verðbólguþróun á liðnu sumri mætti forsrh. í ræðustól og tilkynnti að hún væri að minnka. Mig minnir að ég hafi heyrt hið sama til hæstv. fjmrh. Þessi síbylja um að ráðamenn taki ekki tillit til eða geri sér ekki grein fyrir því að hættumerki eru á lofti vekur manni ugg. En hæstv. fjmrh. tók fram að fjárlagafrv. sýndi aðhaldssemi í fjármálum.

Ég fæ ekki betur séð en að a.m.k. sé ekki staðið eins fast á bremsunum og þensluástandið krefst. Á komandi ári munu útgjöld halda áfram að aukast og verða 11 milljörðum kr. hærri en áætlað er á yfirstandandi ári og 17 milljörðum hærri sé litið á fjárlög ársins 2000.

Hættumerkin sem ég minntist á eru verðbólgan fyrst og fremst, verðþenslan og bak við hana þessi gífurlegi viðskiptahalli sem við búum við. Verðþenslan leikur íslensk fyrirtæki grátt. Hinir gífurlegu vextir hljóta að vera fyrirtækjunum þungir í skauti. Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja hefur stórum versnað. Það er að vísu ekki allt heimatilbúinn vandi vegna þess að þróun hins nýja evrópska gjaldmiðils, evrunnar, hefur einnig komið þar mjög alvarlega til skjalanna. Það er verðþensla og undanfari verðbólgu sem við erum að glíma við. Verðbólgan hefur mælst þrefalt hærri hér á liðnu ári en í helstu viðskiptalöndum okkar og við það eiga samkeppnisfyrirtækin auðvitað mjög erfitt að búa eins og gefur að skilja.

Launaskrið er í góðærinu og ekkert undarlegt við það þótt það komi ekki til góða þeim sem eru lægst launaðir. Gengið er í stórfelldum háska statt eins og sýndi sig á liðnu sumri og spekúlantarnir eru áreiðanlega ekki hættir við þau markmið sín að sækja á það. Það eiga menn eftir að fá að reyna. Alvarlegasta ógnunin við verðþensluþróunina er ef gengið fellur. Það þarf að kosta miklu til að hindra það. Hins vegar kann vel að vera að við því verði ekki spornað mjög lengi ef svo heldur fram sem horfir og þá eru váboðar fram undan. Og gegn verðþenslunni og viðskiptahallanum er auðvitað aðalatriðið aðhald í rekstri ríkisins sjálfs og það er þar sem stjórnvöld og hið háa Alþingi koma til skjalanna.

En hvers eðlis er --- og það hefur reyndar komið fram í umræðunum hér --- tekjuafgangur ríkissjóðs? Gaman væri að fá upplýsingar um hvað það gerir í blóðið, hinn mikli viðskiptahalli í innflutningsgjöldum, í virðisauka og öðrum sköttum. Við vitum að nýir skattar sem bitna harðast á þeim lægst launuðu eiga þar drjúgan þátt í. Þetta er auðvitað froðufé sem ríkissjóði áskotnast vegna viðskiptahallans og verðþenslunnar og ég man ekki betur en ég hafi heyrt hv. þm. Jón Kristjánsson, formann fjárln., sérstaklega nefna það á liðnu sumri að menn þyrftu að fara varlega í ráðstöfun þess fjár að því sem það væri að svo miklu leyti froðufé, bólgufé.

Mér þykir miður að hv. 5. þm. Vestf. er horfinn af vettvangi því að ég átti alveg sérstakt erindi við hann til þess að rifja upp ræðu sem hann hélt við 1. umr. fjárlaga á liðnu ári og talaði mjög ástríðuþrungið um stöðu þeirra mála og varpaði þungum áherslum á að svona gæti ráðdeildin í þeim málum ekki lengur gengið. Þá var bullandi halli á rekstri heilbrigðismálanna og við stöndum frammi fyrir því enn í dag þrátt fyrir lokun sjúkradeilda, þrátt fyrir lenginu biðlista og þrátt fyrir hækkun lyfja sem nemur 1 milljarði kr. sem veldur því að fátækt fólk hefur ekki efni á að kaupa sér nauðsynleg lyf. Ég var, hv. 5. þm. Vestf., að rifja upp þá stund þegar ég hlýddi á hv. þm. halda tilfinningaþrungna ræðu um stöðu heilbrigðismálanna við umræðuna um fjárlagafrv. 2000 sem hann tók þátt í í fyrra. Og hann, sem maður upp á kvenhöndina, vildi ekki snúa sér með neinum harkalegum árásum að hæstv. heilbrrh. heldur var það mest sjálfsásökun sem hann hafði uppi. Við berum ábyrgð á þessu, sagði hann, allir sem hér erum, þessum þremur milljörðum eða hvað það var. Ég er að rifja þetta sérstaklega upp vegna þess að hv. þm., varaformaður fjárln., sagði að þetta gæti ekki gengið, þetta mundi ekki endurtaka sig. Hver er ástæðan í dag þrátt fyrir að sjúkradeildum sé lokað, þrátt fyrir að stórlega sé dregið úr þjónustunni, þrátt fyrir að biðlistarnir lengist svo til vandræða horfir? Bullandi halli. Hvaða tillögur eru nú uppi hjá þessum málsvara Sjálfstfl. til að endurskipuleggja þessi mál? Vegna þess að ég sé ekki að unninn verði bugur á þessu vandræðaástandi nema með rækilegum uppskurði. Þessar tillögur hljóta að liggja fyrir því, eins og hann sjálfur tók fram, að á þennan veg getur þetta ekki gengið.

Sjálfsagt mun sparnaðurinn í lyfjakostnaðinum hafa í för með sér áframhaldandi lækkun útgjalda hins opinbera. Menn safnast fyrir til feðra sinna ef þeir fá ekki nauðsynleg lyf og þar með sparast sjúkrahúskostnaður og dýr umönnun sparast. Einn milljarður í sparnað þar, þar fá þeir milljarð til þess að verja með stofnun sendiráðs í Japan upp á milljarð ef þeim sýnist svo. Hvernig stendur á þeirri ráðdeild? Það er rétt að varaformaður fjárln. og talsmaður Sjálfstfl. svari því að með þeirri ráðdeild ætli hann að verja 1 milljarði í að stofna sendiráð í Japan.

Að vísu er Japan mikið og verðmætt viðskiptaland okkar en við höfum líka náð mikilli og góðri markaðsstöðu þar fyrir sjávarafurðir okkar vegna framtaks útflutningsfyrirtækjanna sjálfra og það eru auðvitað þau sem eiga að halda áfram að sjá um það. Á þessari miklu tækniöld í viðskiptum sýnist manni að viðskipti við þessi fjarlægu lönd gætu farið öðruvísi fram en að eiga fulltrúa sem mest væri til þess ætlaður að taka í hendina á Hirohito sáluga eða því fólki við hátíðleg tækifæri. Einn milljarður takk, sem er rétt að segja alveg óskiljanlegt þótt mikilsvert sé að þetta litla land okkar hafi sem best viðskipti við erlend ríki og þá viðskiptalönd okkar öllu helst. Við höfum engin efni á því að stofna til slíks kostnaðar eins og þetta er. Ætli það verði ekki næst að menn stofni sendiráð upp á milljarð í Buenos Aires?

Þótt ég sé eindregið þeirrar skoðunar að beinskera þurfi niður framkvæmdir svo braki í hverju tré, þá hlýtur maður þó að mega nefna ýmislegt sem maður saknar í fjárlagafrv. Það þarf líka, til að vinna bug á viðskiptahallanum, að draga úr opinberum framkvæmdum sem kostur er. Það þarf líka að forgangsraða þar en lítið vit er í því að forgangsraða með þeim hætti að velja slysagildrur Reykjavíkurborgar til að fresta endurbótum á því vegakerfi. Ef ég nefni vegakerfið sérstaklega og hið mikla fjármagn sem til þess er varið, þá skulum við aðeins rifja það upp fyrir okkur að kraftaverk hafa verið unnin í íslenskum samgöngumálum og vegalagningu sér í lagi, hrein kraftaverk, enda höfum við þar sem yfirstofnun Vegagerðina sem ég þykist hafa þá kunnugleika af að beri af öllum öðrum opinberum stofnunum í rekstri, framtaki og vinnubrögðum og á að vera óhætt að láta þá um og segja til um hvar hagkvæmast sé að verja fénu. Þess vegna höfum við efni á að doka rækilega við um vegaframkvæmdir, ég tala ekki um að bora í gegnum fjöll sem aldrei gefur neinn arð.

Ég hef kannski leyfi til að spyrja eftir kosningaloforðum eins og loforði Framsfl. um 1 milljarð í baráttunni gegn eiturefnunum. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um ástand þeirra mála í okkar litla þjóðfélagi. Sú óáran vex hröðum skrefum. Það er að sínu leyti gífurlega dýrt fyrir þjóðfélagið og við megum til með að taka okkur mjög á. Kosningaloforð eru væntanlega gefin til þess að standa við þau en ekki gefin aðeins fyrir kosningar til að afla atkvæða.

[12:45]

Ég nefni umferðarmálin þar sem vargöld ríkir á vegum þessa lands. Var ekki hæstv. dómsmrh. að tilkynna að vegalögreglan og eftirlit á vegum yrði eflt til að hindra þau ógnarlegu slys sem hafa riðið yfir okkur? En niðurstaðan er niðurskurður á fjárframlögum til þess arna. Ég veit ekki hvort mönnum er sjálfrátt þegar þetta er haft í huga.

Ég hef áður lagt til opinberlega að bætt yrði við um 30 bifreiðum til eftirlits á vegum landsins og að tryggingafélögin yrðu látin borga helminginn af kostnaðinum við það. Áreiðanlegt er að þetta gæti orðið til að minnka rekstrarkostnað þeirra þegar á heildina er litið.

Örfá orð um málefni sem hefur verið þæft mjög undanfarna daga og það eru málefni öryrkja og aldraðra. Hinn 24. mars 1999 birti hæstv. ríkisstjórn yfirlýsingu um breytingar á upphæðum tryggingagreiðslna þar sem sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Því hyggst ríkisstjórnin nýta svigrúm í fjármálum ríkissjóðs til að koma til móts við sjónarmið lífeyrisþega um að raunkaupmáttaraukning lífeyrisbóta verði ótvírætt sambærileg við það sem orðið hefur hjá öðrum.``

Þar sagði enn fremur: ,,Áfram verður kerfi almannatrygginga til skoðunar, ekki síst í samráði ríkisstjórnar og eldri borgara.``

Svo mörg voru þau orð. En hvernig hefur verið staðið við þetta? Nú skyldi maður halda að svigrúmið væri ærið ef maður hefur aðeins tekjuafganginn í huga.

Hæstv. fjmrh. hlýtur að hafa verið búinn að gleyma þessari yfirlýsingu frá 24. mars 1999 þegar ákveðið var fyrir skömmu, eftir að hann upplýsti um hinn mikla tekjuafgang ríkissjóðs, að tryggingagreiðslur skyldu einungis hækka um 0,7% 1. september sl. eða 123 kr. Ég fór í morgun og lét vigta eina appelsínu fyrir mig úti í Samkaupum. Hún kostaði 69 kr. Þessi lífeyrisþegi hefur ekki efni á að kaupa tvær, það vantar 15 kr. upp á það. Hins vegar var allt annað uppi á teningnum 1. apríl því að þá hækkaði þetta um 157 kr. og þá höfðu gengið af 19 kr. af þessum tveimur appelsínum.

Ég verð að segja það líka að það er mikið rétt að ekkert liggur fyrir um það hvar samningar koma niður við opinbera starfsmenn og þá er ég sérstaklega með kennara í huga. Það er ekki hægt að ætla borð fyrir þá báru. En eins og staða þeirra mála er sýnist mér óhjákvæmilegt að stórbæta kjör þeirra og það muni áreiðanlega nema miklum fjárhæðum.

Ég minnist þess að þegar ég var í skóla á Akureyri þóttu kennarar með betur stöddum opinberum starfsmönnum kjaralega séð. En þessu hefur öllu hrakað með ólíkindum áratugum saman. Nú er svo komið að þessari stétt hefur þar af leiðandi hrakað. Til þessara starfa sækja ekki lengur þeir sem skara fram úr eins og vissulega var staðreynd áður fyrri. Það er vegna þess hvaða kjör þeim eru búin. Þetta er í nútímaþjóðfélaginu orðinn a.m.k. hálfur uppalandinn alls ungdóms okkar ef ekki í mörgu falli nærri því að sjá um allt uppeldið.

Ýmis augljós hættumerki eru á lofti í íslensku fjármála- og efnahagslífi. Það færi betur að ráðamenn skelltu ekki skollaeyrum við aðvörunum í sjálfumgleði sinni. Það er mjótt mundangshófið í þeim efnum og stutt í ófarnað verðbólgunnar ef ekki er gætt ýtrustu aðgæslu. Einskis má láta ófreistað til að sigling fyrir sker verðbólgu takist. Skerin eru nefnilega fram undan og fyllstu aðgæslu þarf að beita í siglingu þjóðarskútunnar. Um það hjóta allir að geta sameinast, hvar í flokki sem þeir standa.