Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 12:53:57 (99)

2000-10-05 12:53:57# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[12:53]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hinn rétti mælikvarði á þessa hluti er náttúrlega vísitala samneyslunnar. Á þann mælikvarða hefur þjónustan ekki minnkað. Hún hefur aukist stórkostlega. Einstakar aðgerðir hafa að vísu orðið miklu dýrari þar sem við höfum verið að gera þetta með miklu meiri og nýrri tækni en aukningin er alls staðar í magni hvar sem litið verður. Krafa þjóðarinnar er það líka. Það vilja allir hafa góð heilbrigðismál og umsögn erlendra aðila um stöðu heilbrigðismála á Íslandi er mjög góð. Alþjóðabankinn gefur út árlega vitnisburð um það hvaða þjóðir standa sig best í heilbrigðismálum. Vitnisburðurinn kom síðasta sumar. Þar töldu þeir að Frakkar stæðu best að vígi, sinntu þessu best. Ég man ekki hvort við töldumst í 7. eða 8. sæti. Einhvers staðar þar vorum við þannig að vitnisburður þeirra sem mæla þetta var mjög góður. Auðvitað væri betra að vera í fyrsta sætinu en við fengum mjög góðan vitnisburð. Heilbrigðismálum er mjög vel sinnt á Íslandi. Þau kosta hins vegar mjög mikla peninga. Við erum að verja eins miklu og þeir sem gera það hvað mest, um 8,5%. Ég held að það sé nokkurn veginn samstaða um það í þjóðfélaginu að halda því áfram. Hitt getur alltaf verið deiluefni og við eigum að vera vakandi yfir því hvort við getum ekki varið þessum peningum betur, hvort ekki sé hægt að nýta þá betur og hvort þeir geti ekki komið mönnum til betri nota en þeir gera í dag. Mjög oft er bent á það að við ættum að leggja meiri áherslu á forvarnastarfið en við gerum og er sjálfsagt að taka tillit til þeirra ummæla og reyna að átta sig á því hvort það getur ekki betur nýst en það er mjög gott, hefur farið batnandi, og er ekki verið að draga úr nokkrum sköpuðum hlut.