Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 12:55:53 (100)

2000-10-05 12:55:53# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., SvH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[12:55]

Sverrir Hermannsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur löngum verið kækur hv. þm. að vitna aðallega í OECD þegar hann hefur þurft að sækja einhver vottorð til handa ástandinu á Íslandi. (EOK: Alþjóðabankinn.) Já, það er í fyrsta skiptið sem ég heyri hv. þm. vitna til hans. Yfirleitt hefur hann bara verið með skýrslur OECD. En til einhverra sem þekkja ekki nógu vel til mála og hið opinbera matar hvort sem er á, er sama sagan æ ofan í æ, hvenær sem vakin er athygli á erfiðleikum eða bent á agnúa í hinu opinbera kerfi sem blasa við í heilbrigðismálunum, þá rjúka talsmenn stjórnarliðsins upp og segja að allt sé í himnalagi. Þess í milli gjósa staðreyndirnar upp eins og kemur fram í sambandi við heilbrigðiskerfið. Annað segja læknar en þessi hv. þm. var að votta um ástandið í þessum málum og annað segja þær þúsundir sem hafa nú bæst á biðlista til þess að fá nauðsynlega hjúkrun og verða vinnufærir.