Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 13:57:23 (105)

2000-10-05 13:57:23# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[13:57]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get upplýst þingheim um þau gleðitíðindi að eftir örfáa daga verður lagt fyrir þingið frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2000. Þar mun koma fram að veruleg breyting hefur orðið til batnaðar að halda þessi fjárlög. Það eru veruleg umskipti frá fyrri árum. Það er tiltölulega lítið sem ríkið hefur farið fram úr í kostnaði sínum miðað við áætlunina sem gerð var eða miðað við lögin sem í gildi eru.

Tekjurnar hafa hins vegar hækkað mun meira en útgjöldin þannig að tekjuafgangur ársins 2000 verður meiri en við gerðum ráð fyrir þegar við samþykktum fjárlögin 7. des. fyrir ári síðan. Þetta hefur því gengið betur í alla staði. Það eru mjög mörg fyrirtæki í ríkiseign og allflest hafa staðið við þá skyldu og orðið við þeirri kröfu að fylgja fjárlögum. Hér er um verulega umbreytingu að ræða frá því sem áður var og það ber að fagna því og ber að heiðra þá mörgu ágætu forstjóra ríkisins sem svo vel hafa að verki staðið. Við höfum ástæðu til að halda að þessi nýju vinnubrögð, þessi bættu og betri vinnubrögð muni halda áfram. Það er ástæða til að treysta því að við séum alltaf að ná betri og betri tökum á fjármálum ríkisins og það er eitt meginatriðið fyrir framtíðina og fyrir efnahagslíf Íslands að svo verði.