Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 14:15:53 (111)

2000-10-05 14:15:53# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er bara vegna þess að hv. þm. spurði mig hvort ég teldi frv. sem hér liggur fyrir raunhæft eða raunsætt. Ég tel það vera byggt á þeim gögnum sem við best höfum. Ég býst við að þeir spádómar sem þar eru séu byggðir af hinum mætustu mönnum, þeim hagfræðingum og þeim sérfræðingum sem um þetta fjalla. Hef ég einhverja ástæðu til að efast um það?

Ég get bent á það að okkur hefur tekist betur, t.d. í ár, heldur en oft áður að nálgast þetta. Það eru minni villur, það eru miklu lægri upphæðir sem koma fram í fjáraukalögum í ár en var í fyrra eða hittiðfyrra. Þannig að nálgun við raunveruleikann er að verða meiri og meiri við fjárlagagerðina. Ég veit að menn eru að vanda sig meira og meira, þeir hafa líka meiri og betri upplýsingar, menn leggja sig meira og meira fram. Forstöðumenn ríkisfyrirtækja taka þetta alvarlega. Þeir vita að það er engin önnur leið til að stjórna ríkisfjármálum en að hlýða fjárlögunum, fleiri og fleiri gera sér það ljóst. Ég hef því enga ástæðu til annars en að vera bjartsýnn á að þetta sé raunsætt.

Þingmaðurinn spurði mig líka hvað ég héldi að líklega mundi nú gerast. Það er nú ekki þannig að menn séu að hvísla hérna daglega hvað þeir halda sjálfir að sjáist í spádómskúlunni þannig að mér finnst nú spurningin ekki alveg við hæfi. En kannski af því að svo fáir heyra til okkar þá get ég svo sem sagt hv. þm. það að svona innst inni í mínum kolli grunar mig nú samt að hagvöxturinn á næsta ári verði meiri en spáð er.