Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 14:21:09 (114)

2000-10-05 14:21:09# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[14:21]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Við höfum verið um margt sammála, ég og hv. talsmaður Sjálfstfl. í þessum umræðum, varðandi fjárlagagerð og fjármál, en við erum ósammála um þennan þátt nákvæmlega sem snýr að sveitarfélögunum. Ekki því að þau eigi að fara að eyða og bruðla, heldur erum við ósammála að því leyti til að við verðum að láta sveitarfélögunum í té þá fjármuni sem þarf til að standa undir þeirri þjónustu sem við höfum áður lagt á þau hér á Alþingi með margs konar lögum.

Ástandið á Íslandi í dag, nefndi hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, talsmaður Sjálfstfl, ástandið er þannig í dag að 15% þjóðarinnar eiga 85% af auðnum. Næstu 10% eiga 95% af auðnum. Það eru 25% þjóðarinnar sem eiga 95% af þjóðarauðnum. Hitt er hjá afganginum, 5% hjá 75% þjóðarinnar. Þetta er nú ástandið í dag, góða ástandið á Íslandi í dag. Þetta er góða ástandið á Íslandi í dag sem ég var að lýsa áðan þegar aldraðir og öryrkjar voru hér á Austurvelli og létu til sín heyra með hrópinu: ,,Heiðra skaltu föður þinn og móður.`` Ég segi það, herra forseti, að það stakk mig illa. Mér finnst ég bera sök á því að nokkru leyti hvernig kjör þeirra eru og ég tel að við eigum að leiðrétta þau kjör. Það er ástandið á Íslandi í dag sem ég vil breyta.