Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 14:23:08 (115)

2000-10-05 14:23:08# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þetta verður ræða í eins konar símskeytastíl því að henni er ætlað að vera tíu mínútur að hámarki.

Fyrst langar mig til að nefna það sem ég tel vera jákvæðast í þróun efnahagsmála á Íslandi nú um stundir. Það sem ég tel vera jákvæðast er á hvern veg atvinnuleysi hefur minnkað, á hvern veg dregið hefur úr atvinnuleysi í landinu. Það mun nú vera komið undir 2%. Og samkvæmt þeim gögnum sem reidd eru fram með fjárlagafrv., þeim spám sem þar er að finna, þá ætla menn að það verði ekki meira en 1,5% á komandi ári. Þetta finnst mér vera gleðileg tíðindi vegna þess að eitt alvarlegasta þjóðfélagsböl er atvinnuleysi.

En þótt prósentan sé lág þá skulum við ekki gleyma því að að baki hverju prósentustigi er mikill fjöldi fólks, er fjöldi einstaklinga. 1% atvinnuleysi þýðir 1.350 atvinnulausir einstaklingar. Þessu skulum við ekki gleyma. Og ef það er staðreynd að atvinnuleysi á Íslandi sé nú 2% eða rétt innan við 2% þá eru það 2.700 manns. Þetta vildi ég nefna fyrst, því að það á að vera forgangsverkefni í atvinnulífinu að halda atvinnuleysinu í algjöru lágmarki, helst útrýma því með öllu því að rétturinn til vinnunnar eru mannréttindi sem við eigum að hafa í heiðri.

Þá vil ég nefna tekjuafganginn sem ríkisstjórnin stærir sig af. Því er spáð að tekjuafgangur verði rúmir 30 milljarðar kr. á komandi ári. Þetta eru miklir fjármunir. Hins vegar hefur verið bent á það við umræðurnar að ýmsar blikur séu á lofti. Þessara tekna sé aflað að verulegum hluta til vegna mikillar veltu í þjóðfélaginu, þar á meðal mikils innflutnings. Og staðreyndin er sú að á þessu ári flytjum við inn til landsins 54 milljörðum meira en við flytjum út. Og menn eru að gera því skóna að þessi munur verði enn meiri á næsta ári eða 57 milljarðar kr.

Hv. þm. Jón Bjarnason minnti okkur á það í sinni framsögu að á sama tíma í fyrra þegar við vorum að fjalla um fjárlögin við 1. umr. þá hefðu menn verið að spá því að viðskiptahallinn mundi nema um 20 milljörðum kr. á þessu ári. Nú eru menn að tala um 54 milljarða. 20 milljarðar eru um 4% af landsframleiðslu, 54 milljarðar eru um 8% af landsframleiðslu. Og samkvæmt þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir því að engin breyting verði á þessu á komandi árum, því að hér segir, með leyfi forseta, á bls. 12:

,,En þrátt fyrir það verður áfram mikið ójafnvægi í viðskiptum við útlönd í þessum framreikningi. Samkvæmt honum verður viðskiptahalli verulegur allt tímabilið,`` --- og hér er verið að vísa til tímabilsins til 2005 --- ,,þótt hann lækki nokkuð frá því sem nú er. Búist er við að hann verði á bilinu 7--7,5%.``

Ég minni á orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar að nýju. Við vorum að tala um 20 milljarða halla, 4%. Nú erum við að tala um 8% af landsframleiðslu, 54 milljarða, 57 á komandi ári og ríkisstjórnin spáir því eða stofnanir hennar að það verði framhald á þessu á komandi árum. Þetta er áhyggjuefni.

Hæstv. fjmrh. benti okkur á að skuldir ríkisins væru á niðurleið og hann valdi til viðmiðunar árslok 1997. Hann sagði, með leyfi forseta, í ræðu sinni:

,,Þessi góða afkoma hefur fyrst og fremst verið nýtt til þess að grynnka á skuldum með þeim árangri að hreinar skuldir ríkissjóðs munu lækka úr 170 milljörðum króna í árslok 1997 í 100 milljarða í lok ársins 2001 samkvæmt áætlun frv. Hrein skuldastaða í hlutfalli við landsframleiðslu lækkar á þessu tímabili úr 32,5% í 14%.``

Vandinn er bara sá að skuldir Íslendinga fara vaxandi. Á sama tíma og verið er að ná skuldum ríkisins niður vaxa skuldir íslensku þjóðarinnar. Ekki bara fyrirtækjanna og einstaklinga á markaði heldur einnig sveitarfélaganna og ýmissa þeirra stofnana sem ríkið hefur falið að sinna ýmsum þeim verkefnum sem áður voru á vegum opinberra aðila.

Hér segir í þjóðhagsáætlun, með leyfi forseta, á bls. 10:

,,Mikill viðskiptahalli og lántökur til fjárfestinga í erlendu áhættufjármagni birtast í hærri skuldastöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum. Gert er ráð fyrir að hrein skuldastaða verði í lok árs um 78% af landsframleiðslu, eða 111/2 prósentustigi hærri en um sl. áramót. Reiknað er með að hrein skuldastaða hækki í 85% af landsframleiðslu fyrir lok næsta árs.``

Það er þetta sem efnahagsstjórnin og fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar er að leiða til, að skuldir Íslendinga fara ört hækkandi.

Þá er komið að því að spyrja hvernig eigi að nota tekjuafganginn. Ég hjó sérstaklega eftir því að á meðal þeirra atriða sem hæstv. fjmrh. nefndi sérstaklega voru barnabæturnar. Á bls. 439 í fjárlagafrv. er gerð grein fyrir því hvernig 600 millj. kr. skuli pumpað inn í barnabótakerfið til viðbótar frá því sem áður var. En ég vek athygli á því að samkvæmt reikningi 1999 voru barnabæturnar 3,9 milljarðar, samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2000 3,6 milljarðar og samkvæmt frv. rúmir 4,2 milljarðar. Með öðrum orðum er munurinn á reikningnum frá 1999 annars vegar og frv. nú hins vegar, munurinn er ekki neinar 600 milljónir heldur 300 milljónir kr. Svona er nú hægt að fara í alls kyns talnaleiki en staðreyndin er sú að á síðustu tíu árum eða frá árinu 1991 hafa barnabæturnar lækkað í krónum talið um einn milljarð kr.

[14:30]

Ef þetta er reiknað samkvæmt núvirði þá er um að ræða 2 milljarða kr. sem stjórnvöld hafa fært þetta framlag til barnafólks niður, um 2 milljarða kr. Og nú segjast þeir vera að koma með 600 milljónir til baka --- 300 milljónir eftir því hvernig við reiknum. En við skulum gefa okkur að þetta séu 600 milljónir sem verið er að setja inn til viðbótar. Þetta er aðeins brot af því sem tekið hefur verið af barnafólki. En ég heyrði það á tali hæstv. fjmrh. að honum þættu þetta vera miklir fjármunir, og það er alveg rétt að þetta eru allmiklir peningar. En þó vantar 100 millj. kr. til þess að þetta nái þeirri upphæð sem menn ætla að verja til kaupa á sendiráði í Tókíó. Menn ætla að láta minna viðbótarfjármagn inn í barnabótakerfið en nemur sendiráðsbyggingu í Tókíó. Og ég er bara að tala hér um bygginguna því að menn ætla að verja á annað hundrað milljónum á ári til að reka þetta sendiráð.

Ég er ekki andvígur því að efla íslenska utanríkisþjónustu, ég er ekki andvígur því. En þetta er bruðl og þetta er hneyksli. Og ég ætlast til þess að hæstv. fjmrh. skýri fyrir okkur hvernig þessum peningum verður nákvæmlega varið, hvers konar glæsihöll hér er verið að reisa. Menn eru að stæra sig af því að láta 600 millj. kr. til viðbótar í barnabætur, sem þó er aðeins brot af því sem tekið hefur verið af barnafólki á undangengnum árum. Og þetta er 100 millj. kr. lægri upphæð en menn ætla að nota til kaupa á einni sendiráðsbyggingu.