Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 15:10:51 (123)

2000-10-05 15:10:51# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrri spurningu þingmannsins varðandi sveitarfélögin þá er ekki miklu að bæta við það sem ég sagði hér fyrr í umræðunni því að ég var spurður þessarar sömu spurningar snemma í umræðunni. Þetta mál er í athugun, það er í vinnslu í nefnd hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni og fleiri þingmönnum reyndar. Það liggur fyrir vilji ríkisstjórnarinnar um að koma til móts við sveitarfélög sem hafa misst frá sér fólk með fólksfækkunar- og þjónustuframlögum og sömuleiðis að gera leiðréttingu á fasteignagjaldagrunninum sem mundi skila íbúunum úti á landi leiðréttingu upp á rúman milljarð þó að það skili sér kannski ekki beint til sveitarfélaganna í fyrstu umferð, það gerir það auðvitað óbeint. Annað liggur ekki fyrir í þessu máli á þessu stigi.

Að því er varðar síðari spurninguna um niðurgreiðslu á rafhitun þá er aukningin í frv. að mig minnir um 30 millj. kr. frá fjárlögum þessa árs. En það liggur þarna fyrir alveg ákveðin áætlun um hvernig auka beri þessar niðurgreiðslur. Og þessi upphæð er núna komin í 790 millj. kr. samkvæmt frv. Ætli það þætti nú ekki nokkur upphæð í samanburðarfræðum hv. þm. Ögmundar Jónassonar, 790 milljónir, eins og hann mundi orða það, í þetta.

En hvað sem því líður þá vil ég taka það fram í tilefni af þessari fyrirspurn að það er auðvitað ásetningur ríkisstjórnarinnar að standa við þá áætlun sem gerð hefur verið. Ef eitthvað vantar upp á það í frv. eins og það er núna úr garði gert munum við að sjálfsögðu skoða það í meðförum þingsins.