Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 15:12:42 (124)

2000-10-05 15:12:42# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég vil koma aðeins aftur að niðurgreiðslunum. Ég fagna því að hæstv. fjmrh. skuli lýsa því hér yfir úr ræðustól Alþingis að það eigi að standa við það samkomulag sem gert var í nefndinni, en sú nefnd var þverpólitísk. Það er hins vegar ekki gert í frv. Að mig minnir þá hefði þurft að auka þetta um 250 milljónir á hverju ári í þrjú ár. Í fyrra eða á þessum fjárlögum var stigið eitt skref sem var þó lægri tala en lofað var. Það voru ekki nema tæpar 200 milljónir. Það var vegna þess að allir þeir staðir sem hafa dýra húshitun með hitaveitu, t.d. hitaveitu Akureyrar, Akraness og Borgarfjarðar og fleiri, þeir staðir voru skildir út undan. Að mínu mati vantar þarna núna í kringum 300--350 milljónir til að standa við þetta loforð. Og ég fagna því frá hæstv. fjmrh. að við það samkomulag verði staðið.

Hitt atriðið varðandi tekjustofna sveitarfélaga, sem við eigum væntanlega eftir að ræða betur þegar frv. um það kemur fram, en engu að síður í því góðæri ríkissjóðs sem nú blasir við þá stendur það enn þá og hæstv. fjmrh. andmælti því ekki að við erum að tala um tæpa 15 milljarða sem tekjur sveitarfélaganna í landinu hafa verið skertar undanfarið. Það er það sem menn eru að tala um, hluti af því sem á að skila, og þess vegna vil ég enn þá spyrja hæstv. fjmrh. út í það. Ég tel ekki nægjanlegt að það sé gert með 750 millj. kr. framlagi í jöfnunarsjóðinn eins og var í fyrra. Það eru miklu hærri tölur sem sveitarfélögin eiga inni.