Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 15:15:48 (126)

2000-10-05 15:15:48# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[15:15]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Aðeins aftur að jöfnun húshitunar sem er stórmál fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Ég tel að þarna vanti þessar tölur. Þetta var sú margfræga nefnd sem oft hefur verið vitnað í sem gerði þessar tillögur og studdist við tölur frá ýmsum ráðgjafarfyrirtækjum í Reykjavík sem voru búin að reikna þetta út. Um þetta hefur mikið verið rætt. Þær tölur vantar og ég sé ekki að það sé neins staðar í þessu fjárlagafrv., ég ítreka það sem ég sagði áðan. Það vantar að stíga skref númer tvö sem átti að vera í þessu sambandi.

Því miður hefur ekki heldur verið staðið við það loforð sem hæstv. iðnrh. gaf um það að jafna húshitun almennt á öllu landinu heldur hefur það eingöngu verið um rafhitun. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að það eru mjög stór landsvæði sem búa við dýra hitaveitu sem hafa orðið útundan hvað varðar þessa niðurgreiðslu.

En enn og aftur: Þær tillögur sem gerðu ráð fyrir að kostnaðurinn yrði tvöfaldaður á þessum þremur árum, að mínu mati eru það um 300--350 milljónir sem þarna vantar inn. Ég trúi því og treysti, eins og hér hefur komið fram, að við það verði staðið.