Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 15:17:24 (127)

2000-10-05 15:17:24# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þingmenn Samfylkingarinnar í fjárln. hafa í umræðunni gert ágætlega skil ýmsum stærðum sem þetta fjárlagafrv. byggir á. Vissulega er ýmislegt jákvætt við frv. eins og fram hefur komið, eins og góður afgangur á ríkissjóði sem ber vissulega að fagna. En aldrei verður nógsamlega ítrekað hvað viðskiptahallinn er mikið áhyggjuefni í því efnahagsumhverfi og stöðu sem við erum í núna.

Það eru líka ýmsar skuggahliðar á þessu fjárlagafrv. og að mínu viti er æðioft að finna misskilinn sparnað í þessu frv. sem þegar grannt er skoðað mun ekki skila sparnaði þegar upp er staðið eins og þegar menn eru að burðast við að reyna að spara 20 eða 30 milljónir til lögreglunnar, sem Landssamband lögreglumanna hefur mótmælt harkalega eðli málsins samkvæmt, og þegar verið er að spara framlög til fíkniefnamála eins og ég mun koma inn á síðar.

Mér hefur aldrei fundist það einhver sérlega mikil hagstjórn hjá ríkisstjórninni að geta skilað einhverjum afgangi í því góðæri sem við höfum búið við. Það er svo að á föstu verðlagi frá 1995 hefur verið tekjuauki hjá ríkisstjórninni um 50 milljarða kr. Við getum borið það saman við árin 1988--1994 þar sem tekjur ríkissjóðs stóðu nánast í stað. Það er alveg ljóst, eins og fram hefur komið, að sá tekjuauki sem við erum að tala um núna byggir að verulegu leyti á áframhaldandi aukningu í neyslusköttum og beinum sköttum hjá einstaklingum en aftur á móti er gert ráð fyrir að það dragi saman að því er varðar skatta hjá fyrirtækjum og fjármagnseigendum. En beinir og óbeinir skattar til ríkisins hafa aukist um 45 milljarða að mér telst á sl. fimm árum. Það eru auðvitað veikleikar að því er þessa tekjuöflun varðar eins og sala á eignum ríkisins sem er mjög óljós. Ég spyr hæstv. fjmrh. um það hvort hann telji skynsamlegt í þeirri þenslu sem við búum við að stefna að svo mikilli sölu á bönkunum. Ég minni á í því sambandi að þegar var farið út í hlutafjáraukningu í bönkunum fyrir nokkrum árum held ég að allir séu sammála um að það hafi ekki átt lítinn þátt í útlánaþenslunni sem var í þjóðfélaginu sem við erum enn að súpa seyðið af. Ég spyr því hæstv. ráðherra um það hvort hann telji það skynsamlega ráðstöfun í þeirri stöðu sem við erum núna.

Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að ekki er nóg að hrósa sér af miklum tekjuafgangi heldur verður líka að skoða hvernig hann er fenginn. Ég hika ekki við að segja að mér finnst að fjárlögin endurspegli aukna misskiptingu í þjóðfélaginu. Mér finnst nokkuð hátt reitt til höggs gagnvart þeim sem verst standa í þjóðfélaginu. Hér var umræða í gær um stöðu lífeyrisþega sem ég held að sé alveg ljóst að hafi ekki fengið sinn hluta af góðærinu. Það hefur verið kynnt ítarlega að hlutur þeirra, þegar miðað er við dagvinnulaun verkamanns, hafi lækkað verulega ef tekið er mið af stöðunni eins og hún var 1991. Mér sýnist að í fjárlagafrv. núna sé enn gert ráð fyrir því að halda áfram á þessari braut vegna þess að fjárlögin byggja á 4% hækkun á lífeyrisgreiðslum til aldraðra á næsta ári sem er um 2.000 kr. hækkun. Ég sé ekki annað nema um það verði tekin ný ákvörðun að ekki sé gert ráð fyrir meiri hækkun til aldraðra. Á móti sér maður að það á að spara 370 milljónir í lyfjakostnaði, m.a. með aukinni greiðsluþátttöku sjúklinga.

Eins og hefðbundið er orðið hjá þessari ríkisstjórn er enn ráðist á Framkvæmdasjóð fatlaðra. Hann fær sömu krónutölu á næsta ári og á þessu ári en tekjur af erfðafjárskatti, sem hann hefur alltaf byggt sitt framkvæmdafé á, á samkvæmt fjárlagafrv. að vera 607 millj. kr. Það eru því um 372 milljónir af erfðafjárskatti sem renna þá í ríkissjóð og aðeins 235 milljónir þar sem eiga að fara í framkvæmdir þó að við þekkjum langa biðlista eftir uppbyggingu á sambýlum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Þessar 235 milljónir, ef maður setur þær í samanburð við einhverja aðra stærð í fjárlögum, þá eru það 700 milljónir eins og hér hefur komið fram sem eiga að fara í sendiráðið í Tókíó. Það er þrefalt hærri fjárhæð en fer til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Þetta er forgangsröðunin hjá ríkisstjórninni.

Ég nefndi líka að það á að draga úr löggæslu í Reykjavík og lækka framlög til aðgerða gegn fíkniefnum sem er auðvitað enginn sparnaður þegar við búum við að umferðarslysum hefur fjölgað og umferðarþunginn fer sívaxandi og maður sér ekki að það dragi neitt úr fíkniefnavandanum, þvert á móti. En þar á að skera niður um 10 milljónir kr. Hvað halda menn að þeir spari með því að skera niður 10 milljónir kr. til aðgerða í fíkniefnamálum? Hvað halda menn að þeir spari með því að skera niður til löggæslunnar í Reykjavík um einhverjar 20 eða 30 millj. kr.? Auðvitað mun þetta allt koma fram í aukningum á útgjöldum til félags- og heilbrigðismála. Þetta er því ekki skynsamlegur niðurskurður. Það er misskilinn niðurskurður að fara þessa leið. Ég vænti þess að ríkisstjórnin sjái að sér í þessu efni og fjárln. færi þessa þætti til betri vegar. Eins og ég sagði hefur niðurskurðinum verið harðlega mótmælt af Landssambandi lögreglumanna. Þetta gengur þvert á það sem hæstv. dómsmrh. sagði í sumar þegar hún baðaði sig í fjölmiðlum fyrir framan skilti, sem sett hafði verið upp um skelfingar umferðarslysanna, og sagði að hún ætlaði að beita sér fyrir aukinni löggæslu til að bæta eftirlit í umferðinni. Ég spyr: Er þetta svarið við því?

Síðan er það alvarlegt sem fram kemur í fjárlagafrv. að nú er komið að því að hækka vexti á leiguíbúðum upp í markaðsvexti. Nýútkomin skýrsla sýnir að tvö þúsund manns bíða eftir leiguíbúðum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu og margar fjölskyldur búa við sára neyð í því efni. Ég er sannfærð um að þetta mun draga verulega úr uppbyggingu leiguíbúða. Sú tala sem sett er fram í fjárlögum, að það eigi að veita 90% lán til 500 leiguíbúða, er auðvitað út í loftið á meðan það á að taka fyrir það markaðsvexti og sveitarfélögin og félagasamtök eiga að borga markaðsvexti fyrir þessar leiguíbúðir.

Ég minni á að þegar sveitarfélögin bjuggu við 1% vexti á leiguíbúðum var aukning á leiguíbúðum um 300 leiguíbúðir að meðaltali á ári. Á árinu 1997 varð fjölgunin 49 og 39 á árinu 1998. Ég spyr: Halda menn að einhver aukning verði á uppbyggingu leiguíbúða þegar við erum komin með þetta upp í markaðsvexti? Ég segi að það verði rothögg á uppbyggingu leiguíbúða að fara þessa leið og það að leggja fram einhverjar 50 milljónir í aðstoð í styrki til þeirra sveitarfélaga sem ætla að koma upp leiguíbúðum. Það er bara hlægilegt, vegna þess að ef við erum að tala þar um 500 íbúðir þá eru það 100 þúsund á hverja íbúð sem segir ekki neitt í uppbyggingu á leiguíbúðum.

Í lokin, herra forseti, af því að ég sé að tími minn er að verða búinn, þá vil ég líka vara við því sem fram hefur komið að það eigi að fara að skera harkalega niður til vegamála á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum tíma og tækifæri til að ræða það nánar áður en þessi fjárlög verða endanlega afgreidd en það gengur ekki að ávallt sé verið að ráðast á vegaframkvæmdirnar á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurborg hefur skýrt þetta mjög nákvæmlega í rökstuðningi sínum til fjárln. hvað umferðarþunginn hefur aukist og hvað fjárþörfin er gífurlega mikil til að mæta þeim mikla umferðarþunga sem hér er og fer vaxandi. Ég tel því, herra forseti, að miðað við fjölgun umferðarslysa og aukinn umferðarþunga sé heldur ekki verið að spara hér frekar en á ýmsum öðrum sviðum í þessu frv. sem ég hef gert að umtalsefni.