Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 15:32:26 (130)

2000-10-05 15:32:26# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[15:32]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði fyrr í dag er ekki lokið útfærslu á breytingum á barnabótakerfinu. Það er rangt að það kosti um 600 millj. eða langleiðina í það að afnema eignatenginguna. Það er miklu minna sem þar er um að ræða. En málið er óútkljáð vegna þess að ekki er búið að semja frv. og við eigum eftir að fara betur yfir það með aðilum vinnumarkaðarins eins og við höfðum hugsað okkur að gera. ASÍ hefur ekki gert neina sérstaka ályktun heldur sent frá sér einhverja litla úttekt á þessum málum, þ.e. á fjárlagafrv. Ef það er ályktun þá er hún ný, þá er hún síðan í dag, því hún var ekki komin í gær.

En ég vildi geta þess líka vegna þess sem hv. þm. sagði um málefni fatlaðra að veruleg aukning er á þeim málefnaflokki í þessu frv. Það kemur greinilega fram því verið er að taka í notkun ný sambýli og auka þennan rekstur.

En að því er varðar Framkvæmdasjóð fatlaðra vildi ég segja það sem skoðun mína og þætti nú gaman að heyra hver skoðun þingmannsins er á því, að engin eðlileg tengsl eru á milli þess sjóðs, svo ágætur sem hann er, og erfðafjárskattsins. Þetta er bara gömul tenging sem á að afnema að mínum dómi. Þetta er tenging frá því 1954 eða eitthvað þar um bil, hún er að verða hálfrar aldar gömul. Hún var búin til á sínum tíma vegna þess að menn vildu marka sér tekjustofn. En það er með þennan markaða tekjustofn eins og alla aðra að þeir hafa gengið sitt skeið. Þeir þjóna ekki tilgangi sínum. Ég tel að það eigi bara að afnema þetta hreinskilnislega og það eigi að hafa þetta þannig með þennan sjóð, eins og aðra sjóði af sambærilegum toga, að þeir fái bara venjulegar fjárveitingar af fjárlögum eins og hefur verið reyndin í framkvæmd áratugum saman með þennan sjóð vegna þess að hann hefur verið skertur áratugum saman. Þar á meðal hefur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir komið að því máli sem ráðherra, eins og reyndar allir sem setið hafa í ríkisstjórnum umliðna áratugi.