Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 15:36:05 (132)

2000-10-05 15:36:05# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Nokkur orð út af ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.

Það er veruleg aukning til málefna fatlaðra. Í fjárlögum ársins í ár eru ætlaðar 3.488,7 millj. Þessi upphæð hækkar í 3.775,6 millj. í þeim fjárlögum sem við erum að ræða núna. Þar að auki er uppsetningu breytt nokkuð þannig að fæðingarpeningar eða fæðingarorlof færist til. Tiltölulega margar konur eru í þessum geira og talsverðir fjármunir sem fara til að greiða þeim þegar þær eru í fæðingarorlofi.

Það er einnig nokkuð yfirdrifið, það er rétt að það komi hér fram, hvernig staðan er í biðlistamálunum. Við erum nýbúin að taka í notkun dagvistarrými þar sem um 40 einstaklingar njóta þjónustu. Það var mjög gleðilegur atburður og verulega ánægjulegur áfangi. Verið er að endurskipuleggja fyrirkomulag dagþjónustu og verndaðrar vinnu á Akureyri og tekið er tillit til þess í samningi félmrn. við Akureyri. Sama er hægt að segja um samninga ráðuneytisins við Hornafjörð og héraðsnefnd Þingeyinga þar sem gert er ráð fyrir framlögum á þeim svæðum til aukinnar dagþjónustu eða til dagþjónustu sem var ekki áður.

En samkvæmt upplýsingum svæðisskrifstofunnar í Reykjavík eru nú 29 manns án dagþjónustu. Þar af búa 14 á sambýlum, þ.e. 15 einstaklingar í Reykjavík sem hvorki hafa dagþjónustu né sambýli. En eitthvað er um óskir um meiri daglega þjónustu en veitt er. Á Reykjanesi eru 11 sem bíða eftir dagþjónustu, en fjórir af þeim eru á sambýli.

Það liggur fyrir að við getum fengið húsnæði til leigu til að innrétta meiri dagþjónustu og ég vonast til að það takist að gera það fljótlega. Markvisst er unnið að sköpun fleiri úrræða fyrir sambýli og ég bind miklar vonir við að það takist að ná verulegum árangri innan skamms.

Varðandi vextina á leiguíbúðunum, sem hv. þm. nefndi líka, er ekki búið að ganga frá framtíðarfyrirkomulagi varðandi leiguíbúðir. Búið er að gera tillögur en ekki er búið að ganga frá því máli.

Hvað varðar milljarðinn sem framsóknarmenn töldu að þyrfti að fara til aukningar á fíkniefnavörnum þá var í fjárlögum síðasta árs og ráðstöfun í fjáraukalögum á síðasta ári u.þ.b. helmingurinn af þessum milljarði, þannig að það liggur alveg ljóst fyrir að þörf verður á verulega meiri peningum en þessum milljarði til fíkniefnavarna á kjörtímabilinu.

Varðandi barnaverndarmálin eða það sem veit að fíkniefnaneyslu ungmenna eða barna þá er það mat forstöðumanns Barnaverndarstofu að þörfinni fyrir meðferðarúrræði sé fullnægt, bæði fyrir unga vímuefnaneytendur og aðra með hegðunarvandamál. Við höfum sem sagt náð þeim áfanga í barnaverndarmálunum að við getum útvegað meðferðarúrræði eftir því sem þarf.