Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 15:58:00 (139)

2000-10-05 15:58:00# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[15:58]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek ekki undir það að ég sé að nudda framsóknarmönnum upp úr einu eða neinu. Þetta eru eðlilegar samningaviðræður milli tveggja flokka sem vinna saman og það hefur gengið vel.

Ég vil aftur á móti bara segja það að að ímynda sér það að landsbyggðin verði tekin úr sambandi ef grunnnetið verði ekki ríkisrekið, ég sé ekki samhengið í þessu. Ég get ekki heyrt annað en að Vestfirðingar og jafnvel fleiri sem eru með ákveðin fyrirtæki sem standa í gagnaflutningum á milli svæða kvarti einmitt yfir því að gjaldskrá Landssímans sé með þeim hætti að landsbyggðin geti ekki með nokkru móti keppt við þá sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu út af því að hún er svo miklu dýrari fyrir landsbyggðina en höfuðborgarsvæðið. Ég veit ekki betur en að Landssíminn sé að 100% hluta í eigu ríkisins. Það er því ekki hægt að sjá að það sjónarmið gildi.

Ég hef fulla trú á því að þó svo að grunnnetið mundi fylgja sölunni sé hægt að ná fram því samkomulagi milli allra aðila sem sætti menn og tryggi að staða landsbyggðarinnar og landsins í heild verði tryggð. Þess vegna held ég að Samfylkingin sé frekar að reyna að nota þetta til þess að reyna að koma upp óeiningu á milli flokkanna en að þeir trúi þessu í rauninni sjálfir. Ég hef hingað til haldið að Samfylkingin væri framfarasinnaður miðjuflokkur en ekki að hann vildi aðhyllast afturhald að þessu leyti.