Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 16:53:26 (150)

2000-10-05 16:53:26# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[16:53]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Hér hefur margt verið sagt í þessum stól í dag. Margt af því hefur verið alveg prýðilegt. Ég tel að þessi umræða sé til gagns og sé ástæða til að þakka fyrir að ráðherrar hafa komið hér upp öðru hverju þó að við 1. umr. fjárlaga sé máli yfirleitt beint til hæstv. fjmrh. Ég vil ítreka, eins og ég hef oft gert áður, að ég tel að ráðherrar þurfi að vera viðstaddir til að svara fyrir sinn málaflokk við 2. umr. Ég vil bara ítreka þetta vegna þess að nokkrum sinnum hefur verið tilefni til að ræða það.

Af því að hæstv. samgrh. er hér þá vil ég bara segja að ég ætla ekki að spyrja um hvar eigi að skera niður og hvað eigi að skera niður, hvar þessar 800 millj. sem draga á saman um í samgöngumálum eiga að lenda. Ég vil bara segja að niðurskurður og frestun framkvæmda í samgöngumálum getur orðið til bölvunar. Ég tel að það séu alvitlausar frestanir ef slysagildrur sem átti að eyða eru látnar standa. Ég er ekki að segja nákvæmlega hvaða slysagildrur það eru, ég veit það ekki og ætla ekki að spyrja um það sérstaklega. Ég vil bara nefna þetta: Niðurskurður á framlögum til lögreglueftirlits sem leiðir beinlínis til aukinna útgjalda ríkissjóðs vegna aukins kostnaðar í heilbrigðiskerfinu er vitlaus niðurskurður. Ég tel að af því yrði jafnvel meiri tekjuafgangur, til lengri tíma litið, ef menn skoðuðu þessi mál niður í kjölinn. Ég tel að frestun framkvæmda við hættusvæði í samgöngukerfinu leiði til aukins kostnaðar, þar geti verið um alvitlausa ákvörðun að ræða.

Í því sambandi dettur mér í hug það sem ég vil kalla sýndarmennsku, þegar framkvæmdum við skálann við Alþingi var frestað í fyrra, frestun framkvæmda upp á hundrað millj. Ég tel að það hafi verið alvitlaust og þegar farið var að gera samninga um meira húsnæði til handa Alþingi upp á 200 millj. eða meira, ég vil ekki einu sinni segja hvað það var. Það finnst mér ekki vera í lagi. Ég vil bara nefna þetta hér, herra forseti.

Ég sagði áðan að mér segði svo hugur að margar breytingar yrðu gerðar á fjárlagafrv. Þau atriði sem ég tel að taka verði á í aðalatriðum og skipt geta verulegum fjárhæðum eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi verður að leiðrétta hlut sveitarfélaganna þannig að stærri skerfur af sköttum falli í þeirra hlut vegna aukinna verkefna sem þeim hefur beinlínis verið ætlað að taka að sér með lagasetningu. Ég sagði í fyrri ræðu minni að þar væri um að ræða fjárhæðir upp á 4,9--5,5 milljarða kr. og ég mun síðar í ræðu minni tína til þá pósta sem ég tel standa þar á bak við án þess að verðmerkja hvern fyrir sig.

Í öðru lagi tel að leiðrétta verði þá skekkju eða það bil sem myndast hefur milli verkamannalauna og launa aldraðra og öryrkja, um 18--19% miðað við árið 1991 til ársins 1999 eins og margsinnis hefur komið fram.

Í þriðja lagi tel ég nauðsyn á að skýring verði gefin á mismun sem virðist vera á grundvelli fjárveitinga til hinna ýmsu stofnana. Ég tel að það þurfi að skýra grundvöll og viðmið fjárln. við fjárlagagerð.

Ég tel ástæðu til að fjalla um þessi mál. Mér virðist mjög misjafnt hvernig hinar ýmsu stofnanir ríkisins koma út í fjárlagagerðinni. Rökstuðningur minn með því að auka hlut sveitarfélaganna er sá að í dag má segja að þau séu velflest rekin með ábyrgri fjármálastjórn við erfið skilyrði. Þrátt fyrir lítils háttar hækkun útsvars á undanförnum árum þá er langur vegur frá því að sú hækkun vegi á móti útgjaldaauka sem orðið hefur. Kostnaður þeirra hefur aukist vegna skattabreytinga, laga og reglugerða eins og ég hef áður komið að. Auðvitað má segja að það komi öllum til góða ef ríkissjóður getur lækkað skuldir sínar. En það má ekki bitna á sveitarfélögunum þannig að þau sitji í sárum eins og nú er vegna fólksfækkunar og tekjumissis af þeim völdum en með sífellt meiri byrðar vegna lagasetningar. Svo ég nefni aðeins það þá verður að tryggja sveitarfélögum fullnægjandi tekjustofna til að sinna þeim verkefnum sem við höfum sett þeim hér á Alþingi.

Ég vil nefna nokkur verkefni, nokkur atriði sem hafa áhrif á tekjustofna sveitarfélaganna. Sveitarfélögin verða t.d. að greiða fjármagnstekjuskatt af vöxtum, arði og söluhagnaði hlutabréfa. Það má reikna með að aðeins þessi þáttur kosti, án þess að hægt sé að verðleggja hvern þátt fyrir sig sérstaklega, allt að 100 millj. Við vitum að yfirfærsla grunnskólans og einsetning grunnskólans hefur þýtt útgjaldaauka fyrir sveitarfélögin og ég tel að þar vanti nokkuð á að komið hafi verið til móts við þann kostnað að fullu. Kostnaður vegna félagslegrar þjónustu hefur stóraukist og útgjöld vegna mannréttinda fatlaðra aukast hjá sveitarfélögum.

[17:00]

Lög um umhverfismat hafa verið sett. Það þýðir að nánast hver einasta framkvæmd á vegum sveitarfélaganna kostar peninga. Þetta eru aukin útgjöld frá því sem var þegar tekjustofnarir voru ákveðnir eins og nú er gengið út frá. Það hafa verið sett lög um leikskóla, og bara fyrir starfsmannahald er aukinn kostnaður vegna ýmissa þátta sem eru teknir upp með lögum. Ég nefni kostnaðarskiptingu við sjóvarnir. Áður var það þannig að ríkið borgaði allan þann kostnað en núna þurfa sveitarfélögin að greiða 1/8 hluta.

Ég get nefnt að stofnanir ríkisins og fyrirtæki ríkissjóðs eru undanþegin greiðslu fasteignagjalda og ég nefni þar sjúkrastofnanir, kirkjur, skóla, heimavist, íbúðarhús, Rarik og fleira. Þetta má tilnefna bara til að sýna fram á að þær tölur sem ég var að nefna upp á 4,9--5,5 milljarða eru að líkindum mjög réttar.

Ég get nefnt snjóflóðavarnir. Sveitarfélögum var gert að greiða 10% við gerð snjóflóðavarna. Þetta var ekkert áður. Ég get nefnt stjórnsýslulög sem þýða aukinn kostnað við rekstur sveitarfélaganna vegna álitsgerðar lögmanna og vinnu starfsmanna, t.d. vegna fyrirspurna frá ýmsum lögaðilum og almenningi. Þetta er póstur sem menn sáu ekki fyrir áður. Bara því að hækka sjálfræðisaldurinn í 18 ár fylgir aukinn kostnaður fyrir sveitarfélögin að ég nefni ekki félagslegu íbúðirnar. Þetta vita menn og kunna.

Að síðustu er kostnaður vegna fráveitumála sem er afleiðing lagasetningar sem kemur upphaflega með tilskipun frá EES en við tókum þá tilskipun upp guðslifandi fegin og settum um þetta lög. Við greiðum sem nemur 20% af kostnaði sveitarfélaga í fráveitumálum. Þau lög þarf að endurnýja vegna þess að þau falla úr gildi eftir 2004 og þarna verðum við að taka á.

Í lokin þetta: Af því sem ég hef sagt má ráða að þörf er á breyttum vinnubrögðum. Þess vegna vil ég koma sitjandi ríkisstjórn frá, hleypa að nýjum kraftmiklum höndum sem munu jafna leikinn í þjóðfélaginu.