Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 17:31:29 (161)

2000-10-05 17:31:29# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[17:31]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. fjmrh. að ég hef þráð að sjá einhvern ágreining um þá hörðu frjálshyggjustefnu sem þessi ríkisstjórn hefur rekið. Því miður hefur sá ágreiningur verið allt of lítill milli Framsfl. annars vegar og Sjálfstfl. hins vegar enda hefur manni þótt Framsfl. oft orðinn lítið annað en ein deild í Sjálfstfl. Þess vegna fagnaði maður því, eða ég geri það a.m.k., ef þarna voru einhverjir tilburðir á ferðinni til að andæfa þeirri stefnu sem hæstv. fjmrh. hefur rekið.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir. Það er verið að bregðast við því að út er að renna bráðabirgðaákvæði IX í lögunum um húsnæðismál frá 1998 og er brugðist við á tiltekinn hátt. Það segir að hér eftir eigi útlánsvextir að taka mið af markaðsvöxtum. Kveðið er á um þetta á bls. 489. Á bls. 407 segir líka að fjárveiting samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða í lögum um húsnæðismál um niðurgreiðslur vaxta til leiguíbúða falli niður. Þetta er skýrt.

Hæstv. félmrh. kom í ræðustól áðan og sagði Alþingi frá því að þetta væri ekki útkljáð mál. Ekki væri búið að taka endanlega um það ákvörðun að fara þessa leið, að fara með þessa vexti til samræmis við það sem gerist á markaði. Hæstv. fjmrh. segir okkur hins vegar að enginn ágreiningur sé um þetta, sú niðurstaða liggi fyrir, mér skilst að markaðsvextir verði látnir gilda en á móti verði komið með einhvers konar styrkjakerfi sem hæstv. félmrh. segir ósamið um. Ég vil fá upplýsingar um þetta og menn tali hreint og tæpitungulaust um þessi mál.