Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 17:33:40 (162)

2000-10-05 17:33:40# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[17:33]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að ekki er komin niðurstaða í því hvernig eigi að afgreiða hið nýja nefndarálit um þetta mál sem menn eru nýbúnir að fá í hendur um hvernig eigi að taka á framhaldinu varðandi þennan þátt húsnæðislánakerfisins. Það er alveg rétt. En eins og lögin eru núna gerist þetta sjálfkrafa sem um er að ræða í fjárlagafrv. Hvort menn fara síðan út í hliðaraðgerðir með stofnkostnaðarstyrkjum, auknum húsaleigubótum eða öðru, það er það sem á eftir að útkljá.

Hitt atriðið sem þingmaðurinn gerði að umtalsefni í máli sínu voru framlög til lögreglumála og fíkniefnavarna. Ég er búinn að fara yfir það einu sinni í dag varðandi fíkniefnaframlagið sem fellur niður um 10 millj., að það er vegna þess að þar var verið að kaupa ákveðinn búnað. Á að kaupa aftur sérstakan bíl með gegnumlýsingarbúnaði o.s.frv.? Hvað eru menn að fara?

Að því er varðar löggæsluþættina að öðru leyti var farin sú leið af hálfu dómsmrn. í þeirri vinnu sem öll ráðuneyti þurftu að ganga í gegnum að hagræða hjá sér um ákveðið hlutfall, að láta það hlutfall vera jafnt á alla þætti starfseminnar, 1,7% og hjá stórum embættum sem hafa tugi, hundruð millj. umsvif, fyndist manni ekki neitt sérstaklega flókið mál að ná niður umsvifunum um 1,7% á heilu ári.

Síðan vil ég bæta því við sem ég sagði fyrr í dag að það skyldi þó ekki vera að hið illa Schengen-samstarf, sem margir þingmenn forsmá, skyldi geta hjálpað okkur eitthvað í fíkniefnamálunum. Það á að stórfjölga starfsmönnum á Keflavíkurflugvelli við hið svokallaða landamæraeftirlit. Halda menn kannski að það hafi engin áhrif í fíkniefnaeftirlitinu?