Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 17:37:40 (164)

2000-10-05 17:37:40# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[17:37]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil í ræðu minni drepa á nokkur atriði bæði við fjárlagagerðina sjálfa og ýmis atriði sem þar birtast og ýmis atriði líka varðandi einstök ráðuneyti.

Í fyrsta lagi, herra forseti, verð ég að játa það þegar við nú tökum við frv. til fjárlaga í annað sinn að fyrir ári þegar ég tók á móti frv. til fjárlaga frá hæstv. fjmrh. og með mikið lof og prís frá þáv. og núv. formanni fjárln. og ekki síður frá þáv. og núv. varaformanni fjárln., tók ég þetta allt sem miklum sannleik. Allir voru svo sælir og ánægðir að ekki hafði hver undan öðrum að lofa það og prísa, og þetta væri allt saman hinn endanlegi sannleikur sem væri þarna á borð borinn og við værum þarna komin til að kinka kolli. Í þessari trú var ég lengi fram eftir hausti. Í fjárln. var að vísu þrefað um nokkrar ,,baunir`` eins og hv. þm. og varaformaður fjárln. hefur nefnt minni háttar mál. En ég hélt að við stæðum nokkuð föstum fótum um hinn stóra sannleik um efnahagsforsendur, um viðskiptahalla, um heildartekjur og heildargjöld.

En svo fór þessi skriða að renna af stað. Í nóvember kom alveg nýtt mál. Þá hafði viðskiptahallinn vaxið að mig minnir á þeim mánuði einhvers staðar í kringum 10 milljarða. Þetta var afar erfiður biti að kyngja og í stuttu máli, herra forseti, þegar við stöndum frammi fyrir áætlun um endanlegar tölur yfir tekjur og gjöld og yfir viðskiptajöfnuð ársins 2000 stendur nánast ekki steinn yfir steini í þessu frv. sem ég og aðrir hv. þingmenn tókum á móti með svo mikilli viðhöfn fyrir um ári. Breytingar á meginþáttum frv. hafa orðið svo skiptir tugum milljarða kr., upphæðir sem ég varla kunni að taka mér í munn þegar ég kom inn á þing. Þetta, herra forseti, vekur ekki traust. Það er samt einlæg von mín eins og hv. varaformaður fjárln. gat í ræðu sinni. Hann gat ekkert sagt nema: við vonum að þetta sé betra en í fyrra. En þetta er bara spá eins og hann ítrekaði svo.

Er það kannski svo að ríkisstjórn og þeir sem hún styðst við hafi ekki nema takmarkaða hönd á því sem þeir eru að gera og eins og reyndar varaformaður fjárln. gat áðan um og þeir hafi ekki áttað sig á í hvers konar umhverfi við búum varðandi fjárhagsbúskap ríkisins? Þeir rjúka jafnvel upp til handa og fóta og skammast út í það ef einhver ætlaði að kaupa eða selja gjaldeyri eitthvað hraðar en þeim datt í hug að gerðist og þá sé eitthvert áhlaup á krónuna þegar aðeins er verið að fara eftir þeim einföldu reglum sem þeir hafa sjálfir sett og á grundvelli þess trúnaðar eða þess trausts sem borinn er til efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar? Nei, sendiboðinn litli sem fór og skipti krónunum sínum er laminn og sakaður um áhlaup. Ég tel, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn og með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar átti sig greinilega ekki á þeim raunveruleika sem efnahagslíf okkar býr við.

Má ég vekja athygli á einu í sambandi við fjárlagafrv. sem mér finnst að eigi að skoða mjög vandlega. Undir lið hvers ráðuneytis er lögð fram stefna um útgjöld til næstu fjögurra ára. Ég vek athygli á því að sú tafla sem þar er er unnin af fjmrn. eins og við höfum verið upplýstir um en ekki af viðkomandi fagráðuneyti þó svo þau viti af því. Ég tel, herra forseti, að með því að setja þessa áætlun, þegar framkvæmdarvaldið setur slíka áætlun með þessum hætti inn í frv. til fjárlaga sé á vissan hátt verið að taka fram fyrir hendur löggjafans og binda til næstu fjögurra ára þó svo reyndar þessi kafli hafi ekki lagalegt gildi fyrr en við afgreiðslu fjárlaga. Það hefði verið allt í lagi að leggja þetta fram sem sérstakt rit sem tillögu fjmrn. sjálfs um þessi mál en eins og það birtist þarna lítur það út sem tillaga viðkomandi fagráðuneytis. Það tel ég á vissan hátt vera blekkingu ef viðkomandi fagráðuneyti standa ekki að.

[17:45]

Herra forseti. Ég vil benda á annað í fjárlagafrv. Það er þessi mikli fjöldi skuldbindandi samninga sem er kominn þar inn. Einstök ráðuneyti hafa farið að mér finnst afar frjálslega með þær heimildir sem gefnar eru í fjárreiðulögum fyrir ráðuneyti til þess að gera samninga um einstök verkefni. Fari fram sem horfir verða nánast öll verkefni ríkisins eða meginhluti þeirra orðinn bundinn í slíkum skuldbindandi samningum sem okkur bæði í fjárln. og á Alþingi er kynnt að við höfum engu öðru hlutverki að gegna en kyngja.

Þarna finnst mér, herra forseti, að framkvæmdarvaldið sé hreinlega farið að leika sér að löggjafarsamkomunni og ég vara við þessum vinnubrögðum við framsetningu og gerð fjárlaganna.

Það er ekki hægt annað en að minnast aftur á viðskiptahallann. Mér hefur fundist gæta barnalegrar bjartsýni af hálfu stjórnarliða um að viðskiptahallinn greiðist af sjálfu sér og þetta muni bara gerast einhvern veginn. Við vitum öll að hann greiðist ekki af sjálfu sér. Við vitum að það þarf að vinna fyrir honum. Við vitum að afla þarf útflutningstekna fyrir honum. Það gerist ekkert af sjálfu sér, ekki þó að menn tali um einhver ný hagkerfi. Menn þurfa áfram að standa skil á gjörðum sínum.

Hvernig ætla menn að greiða hann? Það er ekki sjáanlegt í frv. og í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar að spáð sé mikilli aukningu á þjóðarframleiðslu eða útflutningstekjum.

Mér er ekkert gleðiefni að þurfa að rifja þetta hér upp. Ein leið er sjálfsagt t.d. að selja ríkiseignir úr landi. Er það kannski á döfinni til að jafna þennan halla? Ég harma það ef svo er.

Ég vil líka, herra forseti, að síðustu nefna Orkubú Vestfjarða þar sem þess er getið að viðræður séu um að ríkið kaupi Orkubú Vestfjarða. Þar er hægt að setja inn að til standi eða að viðræður séu í gangi en það er ekki hægt að setja inn í frv. að það standi til að létta fjárhag sveitarfélaganna. Ég leyfi mér að spyrja, herra forseti. Er ætlunin að pína sveitarfélögin á Vestfjörðum til að selja orkubú sitt?