Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 18:15:32 (171)

2000-10-05 18:15:32# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[18:15]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil út af því sem þingmaðurinn sagði um viðbrögð markaðarins láta það koma fram að ég tel að viðbrögð markaðarins hafi í aðalatriðum verið mjög jákvæð gagnvart þessu fjárlagafrv. Það er ekkert samhengi á milli þess að frv. sé komið fram og þess sem er að gerast varðandi úrvalsvísitöluna og hlutabréfamarkaðinn almennt. Ég held að þar ráði annað ferðinni.

Hitt vildi ég líka láta koma fram, í tilefni af orðaskiptum okkar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar hér í morgun vegna fréttaflutnings á Stöð 2 í gær, að bankastjóri Landsbankans hafði samband við mig í þinghúsið fyrir skömmu til að biðja mig afsökunar á þeim ummælum sem höfð voru eftir starfsmanni Landsbréfa, dótturfyrirtækis þeirra í Landsbankanum. Landsbankinn mun gefa út yfirlýsingu --- ef hann er ekki þegar búinn að því --- um þetta mál þar sem afstaða bankans til málsins kemur fram skýrt og skorinort vænti ég. Jafnframt kemur fram að þessi starfsmaður bankans, þessi ungi starfsmaður verðbréfafyrirtækis bankans, sagði reyndar mun meira en kom í fréttinni og margt miklu jákvæðara um frv. en Stöð 2 sá ástæðu til að birta. En það er nú önnur saga.

Þetta vildi ég að kæmi fram, herra forseti, þannig að þetta lægi fyrir hér í framhaldi af umræðum okkar í morgun um þessi mikilvægu atriði. Þetta eru mikilvæg atriði og vitanlega er óábyrgt að tala með þeim hætti sem gert var í þessum fréttatíma í gær. Það var fullkomlega óábyrgt af svokölluðum talsmönnum þessara verðbréfafyrirtækja.