Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 18:17:27 (172)

2000-10-05 18:17:27# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[18:17]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða mín gaf kannski ekki tilefni til að líta svo á að ég tæki undir með þeim aðilum sem lýstu þessu yfir í gær. En ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvers vegna er ekki samhengi milli þess hvernig menn bregðast við á þessum svokallaða hlutabréfamarkaði og fjárlagafrv.? Fjárlagafrv. er stærsti einstaki áhrifavaldurinn á það efnahagsumhverfi sem þessi fyrirtæki starfa í og koma til með að starfa í á næsta ári. Þetta eru u.þ.b. 28% af landsframleiðslunni. Ég lýsi því yfir að ég skil ekki af hverju hæstv. fjmrh. segir að ekkert samhengi sé á milli þess hvernig menn bregðist við á þessum svokallaða hlutabréfamarkaði og viðbrögðum markaðarins við fjárlögunum. Menn hljóta að meta hugsanlega arðsemi af því að fjárfesta í þessum fyrirtækjum og hvernig þeim muni vegna á næsta ári og fjárlagafrv. er einn af þeim stóru póstum sem menn horfa til. Þegar frv. kemur fram eru fyrstu viðbrögð sem menn sjá af verðbréfamarkaðnum þau að það er niðursveifla. Ég verð, virðulegi forseti, að segja að ég átta mig ekki á því af hverju hæstv. fjmrh. segir að það sé ekki samhengi milli þess hvernig hlutabréfamarkaðurinn bregst við fjárlögunum og þess að þau séu lögð fram. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. vill túlka það svo að niðursveifla úrvalsvísitölunnar þýði það að markaðurinn bregðist jákvætt við þessu frv.