Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 18:34:14 (176)

2000-10-05 18:34:14# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[18:34]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Þar sem frá var horfið í fyrri ræðu minni gat ég þess að það þyrfti mikla aðgát og það væri mjög mikið vandaverk að reyna að ná sáttum um kjör aldraðra. Þá verður líka að gera þær kröfur til talsmanna aldraðra að þeir fari rétt og satt með hluti en afvegaleiði þá ekki í umræðu. Þingsetningardaginn kom fram mjög alvarlega villa í fjölmiðlum frá hendi talsmanns þeirra. Þar var fullyrt að ríkisstjórnin og stjórnvöld hefðu svikið gamla fólkið með því að láta ekki bætur til ellilífeyrisþega fylgja lægstu launum. Það er herfilegt að segja svona hluti.

Eins og ég rakti fyrr í dag liggur fyrir í lögunum, lögin eru alveg skýr, að ellilífeyrisþegar skulu njóta bóta annaðhvort eftir almennri launaþróun eða eftir neysluvísitölu eftir því hvor vísitalan er hærri. Ég geri líka ráð fyrir því að ýmsir muni hvernig það gekk nú áður fyrr að framfylgja því markmiði sem var allra, að reyna að hækka lægstu laun á Íslandi. Það gekk mjög illa.

Ég minnist þess t.d., herra forseti, að 1987 ætluðu menn að reyna að gera stórátak í því að hækka lægstu laun. Jú, það var gert. En það liðu ekki nema nokkrir klukkutímar frá því að þeir samningar voru undirritaðir þar til allt logaði í deilum á flestum ef ekki öllum vinnustöðum landsins. Engin samstaða var um þetta. Menn sendu slökkvilið til að reyna að slökkva eldana. Það gekk ekki neitt. Hækkunin til þeirra sem voru á lægstu töxtunum gekk upp eftir allan launastigann upp í hæstu hæðir, upp í sjöunda himin þar sem bankastjórar ríkisbankanna sátu og þeir þurftu náttúrlega að fá sitt líka. Þetta var alveg skelfilegt og ég gæti grátið þegar ég minnist þessara daga.

Ég geri það samt ekki vegna þess að á þessum áratug hefur núverandi forustu verkalýðshreyfingarinnar tekist það sem er mjög þakkarvert. Henni hefur tekist að ganga þannig frá hnútum samninganna að lægstu laun hafa núna í tveim síðustu samningum hækkað án þess að það gengi upp eftir launastiganum. Þetta er mjög gleðilegt því að menn vildu þetta allir. Þeim tókst það aldrei áður. Þeim tókst aldrei áður í verkalýðshreyfingunni að ganga þannig frá þessu.

En hvað gerist þá? Hverjir koma þá og mótmæla? Talsmenn aldraðra segjast vera hlunnfarnir vegna þess að bætur þeirra fylgdu ekki lægstu launum. Það er, herra forseti, alveg skelfilegt þegar menn gera sig seka um að tala svona. Þetta má ekki. Það eru engin svik í þessu. Ríkisstjórnin hefur staðið fullkomlega við lagasetninguna.

Ef við ætlum að reyna ná sátt í málunum, sem er mjög brýnt, verða menn fyrst að temja sér að fara rétt með og síðan skulum við setjast niður því það er örugglega hægt ef viljinn er fyrir hendi. En það kostar það að menn vandi sig. Menn verða að vanda sig.

Umræðan í dag hefur gengið út á ríkisfjármálin. Menn hafa spurt: Eru þau nógu traust? Eru þau nógu trúverðug?

Auðvitað erum við hluti af þessum heimi. Auðvitað getum við átt von á því að ekki sé alltaf sólskin. En við höfum verið mjög farsæl á undanförnum árum og það gleymist stundum í umræðunni þegar menn tala um að nú sé góðæri, það gleymist að góðærið var ekkert sem kom með blænum að handan. Nei, góðærið, stærsti hluti góðærisins er einmitt þær lagabreytingar, þær breytingar á allri viðskiptalöggjöf Íslands sem hafa átt sér stað á þessu þingi á síðustu tíu árum. Við höfum gjörbreytt viðskiptaumhverfinu. Við höfum gjörbreytt þjóðfélaginu í markaðsþjóðfélag frá því að vera handstýrt stekkjastauraþjóðfélag þar sem við keyrðum efnahagsmálin út af reglulega á nokkurra missira fresti. Þetta er einn stærsti hlutinn af því að hér hefur ríkt góðæri.

Annar hluti sem ég gat um í ræðu minni fyrr í dag er sá að hér hefur farsæld ríkt á vinnumarkaðnum. Hér hafa verið gerðir hófsamir skynsemdarsamningar. Ég fór mörgum orðum um það og kvað fast að orði í ræðustól að í þeim samningum sem færu í hönd hjá ríkisstjórninni yrði að fylgja því fordæmi sem Alþýðusamband Ísland mótaði fyrr á árinu.

Ég tek eftir því, herra forseti, að á eftir mér hafa talað allir leiðtogar stjórnarandstöðunnar þar sem þeir hafa ekki mótmælt neinu af því sem ég sagði. Lít ég þannig á að þeir séu sammála málflutningi mínum og fagna því mjög. Það sýnir þá að þeir skilja að þetta er grundvallaratriði. Það er grundvallaratriði að fara ekki út í gömlu vitleysuna.

Skyldi vera að einhver sé búinn að gleyma, eða kannski var einhver sem lærði aldrei, að hér fyrir ekki löngu síðan hafi ríkt það tímabil að kaupmáttur launa á Íslandi hækkaði ekki neitt, þrátt fyrir að launin hækkuðu um tíu þúsund prósent? Eru allir búnir að gleyma þessum tíma eða eru sumir þannig að þeir geti ekki lært?

Ástæða er til að rifja þetta upp aftur og aftur og hamra á þessu aftur og aftur. Við megum ekki víkja af þessari braut. Við megum ekki víkja af henni undir neinum kringumstæðum alveg sama hvað á dynur. Þetta er sú kjölfesta sem verður að fylgja.

Auðvitað þurfum við að fara varlega. Auðvitað þarf að huga að mörgum málum. Auðvitað er margt gagnrýnisvert í stjórn Íslands eins og annarra ríkja. En við höfum þó verið farsælli en nokkru sinni fyrr. Tekist hefur að bæta laun þjóðarinnar meira en nokkurrar annarrar þjóðar í Evrópu að Írlandi einu undanskildu. Við skulum fagna því að við séum svo heppnir og að við séum þeir gæfumenn og við skulum minnast þess að við getum verið það áfram ef við vöndum okkur. Vissulega er vá fyrir dyrum. Ýmislegt reynir á. En þá ber að nýta sér það að við erum búin að efla ríkið. Ríkið stendur vel efnahagslega.

Minnumst þess að ekki er nema ein leið til að bæta kjör einnar þjóðar. Aðrar hafa aldrei verið til og verða aldrei til. Sú leið er að bæta starfsumhverfi atvinnuveganna. Ef við teljum umhverfið viðsjárvert eigum við að nýta okkur það að hér er sterkur ríkiskassi. Við höfum gengið vel frá ríkisfjármálunum. Það hafa orðið algjör umskipti á síðustu tíu árum. Við getum þá komið atvinnulífinu til hjálpar, lækkað gjöld og lækkað skatta til að styðja atvinnulífið í því að halda áfram að bæta kjör Íslendinga. Það er vilji til að gera það. Þetta getum við. Þessi leið er fær af því að menn hafa notað tækifærin á undanförnum árum til þess að treysta ríkissjóð. Það frv. sem núna liggur fyrir er enn einn hornsteinninn í þá byggingu.