Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 18:42:39 (177)

2000-10-05 18:42:39# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[18:42]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er rangt sem kemur fram í staðhæfingum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að ríkisstjórnin hafi staðið við sitt gagnvart öryrkjum og öldruðum. Ég sýndi fram á það í umræðum á Alþingi síðastliðið vor og í blaðagrein sem ég birti í Morgunblaðinu 24. mars síðastliðinn að bætur almannatrygginga hefðu ekki hækkað á lögboðinn hátt. Ég hef ekki tíma til að fara nánar út í þetta.

Staðreyndin er svo líka sú að á undanförnum árum hefur breikkað bilið á milli þeirra sem eru á bótum hjá almannatryggingum annars vegar og þeirra sem eru á lágum kauptöxtum hins vegar. Frá 1993--1999 hækkuðu lágmarkslaun um 52% en grunnlífeyrir, tekjutrygging, heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót auk eingreiðslna um 30%. Samkvæmt því sem samið hefur verið um á vinnumarkaði og samkvæmt þeim yfirlýsingum sem ríkisstjórnin gaf í vor mun enn gliðna þarna á milli.

Í samningunum sem kenndir voru við Flóabandalagið frá því í vor er gert ráð fyrir því að almennar kauphækkanir verði 13,36% til fjögurra ára. En á sama tíma munu lægstu laun samkvæmt þessum sömu samningum hækka um 30%. Áður en síðasta ríkisstjórn komst á valdastól hefðu bætur almannatrygginga tekið breytingum samkvæmt lægstu launum. Nú munu þær gera það samkvæmt þessum fyrrnefndu tölum sem ég vitnaði til. Það mun því enn gliðna í sundur milli þeirra sem eru á bótum almannatrygginga annars vegar og hinna sem eru á lágum kauptöxtum og eru að fá umtalsverðar kjarabætur. Þetta eru því rangar fullyrðingar sem koma fram hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni auk þess sem ég staðhæfi að ríkisstjórnin hafi ekki farið að lögum á síðasta ári og ég sýndi fram á það á Alþingi og hef einnig gert það í blaðagreinum.