Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 05. október 2000, kl. 19:05:10 (186)

2000-10-05 19:05:10# 126. lþ. 4.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 126. lþ.

[19:05]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil við lok umræðunnar þakka þeim sem hafa blandað sér í hana fyrir málefnalegar ræður að flestu leyti sem hafa varpað ljósi á þau viðfangsefni sem við er að fást í fjárlagafrv., einnig varpað ljósi á þann ágreining sem eðlilega er uppi milli stjórnmálaflokkanna, stjórnarandstöðunnar og stjórnarflokkanna, um þau pólitísku mál sem er að finna í frv.

Ég hef reynt að svara spurningum jafnóðum í andsvörum eftir því sem mér hefur fundist tilefni vera til. Ég vil segja vegna fyrirspurnar hv. síðasta ræðumanns um starf fjmrn. að umhverfisgjöldum, að því er svarað á bls. 304, hinni margtilvitnuðu blaðsíðu. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Sérstakur starfshópur í fjármálaráðuneytinu vinnur nú að því að skoða núverandi skattkerfi með tilliti til umhverfismála.``

Og þar er þetta mál rakið frekar.

Ég ætla þess vegna ekki að lengja þessa umræðu frekar. Ég óska eftir góðu samstarfi við fjárln. um framhaldið, bæði stjórnarþingmenn og þingmenn stjórnarandstöðunnar og vænti þess að takast megi að ljúka afgreiðslu málsins samkvæmt starfsáætlun snemma í desember á þann hátt að allir geti við unað eftir atvikum, þó ekki sé hægt að ætlast til þess að allir verði jafnsáttir við það sem út úr frv. kemur á endanum.