Ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 15:07:12 (189)

2000-10-09 15:07:12# 126. lþ. 5.1 fundur 28#B ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs# (óundirbúin fsp.), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Í dag rennur út tveggja daga frestur sem Ehud Barak, forsætisráðherra Ísraels, hefur gefið Palestínumönnum til þess að hætta átökum á hernámssvæðunum, ellegar skuli þeir brotnir á bak aftur ,,með þeim aðferðum sem duga``, svo að vitnað sé til Baraks.

Ariel Sharon, formaður Likud-bandalagsins, gerði sér lítið fyrir nýverið og heimsótti Al-Aqsa-moskuna á Musterishæðinni í Jerúsalem. Sharon var ekki einn síns liðs heldur þótti honum við hæfi að hafa með sér hermenn með alvæpni. Heimsóknin var ekkert annað en táknræn yfirlýsing um ævarandi yfirráð Ísraelsmanna yfir Jerúsalem og sem slík fádæma ósvífin ögrun við sjálfstæðisbaráttu Palestínumanna. Jafnvel Jacques Chirac, forseti Frakklands, hefur fordæmt heimsókn Sharons í moskuna og sagt hana óábyrga og afleiðingarnar fyrirsjáanlegar. Og hverjar eru þær? Í 12 daga hafa Palestínumenn mótmælt þessum yfirgangi á götum úti og nú er svo komið að 90 manns liggja í valnum. Svo að segja allir sem fallið hafa í þessum átökum eru óbreyttir borgarar sem leyfa sér að kasta grjóti á vopnaða hermenn, hermenn sem svara með því að skjóta óvopnaða Palestínumenn, börn og fullorðna á færi. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur fordæmt ofbeldisverkin en það vekur athygli, herra forseti, að sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum sat hjá í þeirri atkvæðagreiðslu með þeim orðum að með hjásetu stæði hann vörð um hagsmuni Ísraels og Bandaríkjanna.

Herra forseti. Ríkisstjórn Íslands hefur lengi fylgt Ísraelsmönnum og Bandaríkjastjórn að máli á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Íslensk stjórnvöld hafa einnig stutt við uppbyggingu á hernámssvæðunum í Ísrael. Hyggst ríkisstjórn Íslands beita sér fyrir því með einhverjum hætti á alþjóðlegum vettvangi að hafa friðvænleg áhrif á þróun mála fyrir botni Miðjarðarhafs? Telur hæstv. forsrh. forsvaranlegt að beita óbreytta borgara ofbeldi með þeim hætti sem Ísraelsstjórn hefur gert á undanförnum dögum?