Ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 15:12:40 (192)

2000-10-09 15:12:40# 126. lþ. 5.1 fundur 28#B ófriður fyrir botni Miðjarðarhafs# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Heimsbyggðin öll lítur þetta mál það alvarlegum augum að nú beinast sjónir helstu ríkja heims að þessu átakasvæði sem aldrei fyrr. Ljóst er að afskipti Bandaríkjanna verða mikil. Ljóst er að Evrópusambandið hefur þegar sent reyndasta talsmann sinn í þessum fræðum, Solana, fyrrum framkvæmdastjóra NATO, til svæðisins. Ljóst er að Kofi Annan, framkvæmdastjóri og aðalritari Sameinuðu þjóðanna, er á leið á svæðið til að reyna að miðla málum þar. Íslendingar munu ekki skipta sköpum hvað þetta varðar en það er ljóst að samúð okkar stendur með því að þessir menn nái að stöðva þá óöld sem þarna hefur risið rétt einu sinni. Ég held að það sé ekki ástæða til að Íslendingar bregðist við sérstaklega hér og nú nema með því að lýsa áhyggjum sínum og stuðningi við þær friðaraðgerðir sem nú eru uppi.