Úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 15:22:39 (200)

2000-10-09 15:22:39# 126. lþ. 5.1 fundur 30#B úttekt á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja# (óundirbúin fsp.), SighB
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[15:22]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Fyrirspurn mín er til hæstv. viðskrh.

Fyrir sex árum kom út skýrsla um stjórnunar- og eignatengsl milli fyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Sú skýrsla var tekin saman af mér í iðnrn. á þeim tíma í kjölfar tillögu sem samþykkt var frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þar um. Í þessari úttekt sem vakti mikla athygli komu fram mjög merkilegar upplýsingar um þróun í þá átt að sífellt færri og færri væru að öðlast meiri og meiri ítök í íslensku atvinnulífi. Gert var ráð fyrir því að sú skýrsla yrði reglulega endurskoðuð. Það hefur ekki gerst.

Þann 4. október á liðnu ári fluttu þingmenn Samfylkingar skýrslubeiðni á Alþingi þar sem því var beint til hæstv. ráðherra að láta fara fram endurskoðun á þessari skýrslu. Sú skýrslubeiðni var lögð fram í fullu samráði við þáv. viðskrh. sem hafði tekið fram í samtali við mig að hann mundi treysta sér til að vinna á því þingi a.m.k. hluta af þeirri skýrslu, þ.e. um eignatengsl og stjórnunartengsl í sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi.

Af því varð hins vegar ekki. En undir þinglok í fyrra fór ég þess á leit við hæstv. viðskrh. að hún mundi vinna málið og flytti Alþingi skýrslu um það á þessum vetri. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hefur það verið gert? Megum við vænta þess að fá þessa skýrslu í hendurnar og þá hvenær? Hyggst hún hafa þann háttinn á sem samkomulag var um við fyrrv. ráðherra, að þetta starf yrði unnið þannig að fyrst yrði tekin saman, til þess að greiða fyrir og hraða málinu, skýrsla um stjórnunar- og eignatengsl milli fyrirtækja í sjávarútvegi? Og ef svo er, hvenær megum við þá fá að sjá þann fyrsta hluta skýrslunnar?