Áhrif álvers á Austurlandi

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 15:30:10 (206)

2000-10-09 15:30:10# 126. lþ. 5.1 fundur 31#B áhrif álvers á Austurlandi# (óundirbúin fsp.), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að óska eftir viðbrögðum hæstv. iðnrh. við áhyggjum forsvarsmanna Norsk Hydro um áhrif álversuppbyggingar fyrir austan, þ.e. umhverfisleg, félagsleg og nú síðast efnahagsleg áhrif. Reiten, talsmaður Norsk Hydro, og nú síðast forstjórinn, Myklebust, hafa lýst yfir þeirri skoðun sinni að fjölmarga þætti þyrfti að skoða nánar og þeir nefna þar á meðal kostnaðarþætti, tímaáætlanir, orkuþætti og staðbundnar aðstæður.

Frést hefur af því að skýrsla starfshóps um efnahagsleg áhrif álvers sé komin út. Hún hefur að vísu ekki birst þingmönnum en frést hefur að niðurstöður skýrslunnar séu þær að á meðan á framkvæmdum stendur við uppbyggingu álvers fyrir austan muni viðskiptahalli stóraukast en það sem er alvarlegra er að því er líka haldið fram og menn þykjast sjá að það verði að vera mótvægisaðgerðir sem leiða til stórfellds niðurskurðar á uppbyggingu annars staðar í samfélaginu. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að vegna umfangs verkefnisins sé nauðsynlegt að endurskoða tímaáætlanir varðandi Noral-verkefnið og fara miklu nánar yfir alla þætti málsins varðandi áhrif af þessu verkefni fyrir landið í heild sinni.