Áhrif álvers á Austurlandi

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 15:32:11 (207)

2000-10-09 15:32:11# 126. lþ. 5.1 fundur 31#B áhrif álvers á Austurlandi# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[15:32]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Svarið er nei. Ég tel ekki ástæðu til að endurskoða tímaáætlanir. Eins og hv. þm. veit eflaust, er meiningin sú að það verði ljóst fyrir febrúar 2002 hvort af þessum framkvæmdum verður eða ekki og ég held að sá tími henti ágætlega. Ég er alveg sammála fulltrúum Norsk Hydro og eflaust hv. þm. að mörg atriði þarf að skoða gaumgæfilega. Það er rétt hjá honum að viðskiptahalli mun aukast til skamms tíma litið en til lengri tíma litið mun hann að sjálfsögðu minnka vegna þess að þarna er verið að tala um mikla gjaldeyrissköpun og mikla aukningu á þjóðarframleiðslu. Ég held að það hljóti að vera mikilvægt fyrir þjóð sem býr sífellt við mikinn viðskiptahalla.

Fundur sem haldinn var í síðustu viku með aðalforstjóra Norsk Hydro og yfirmanni áldeildarinnar var mjög jákvæður og engin áform eu uppi um að breyta áætlunum og þeim áherslum sem undirritaðar voru í maí sem hafa verið kölluð viljayfirlýsing.