Áhrif álvers á Austurlandi

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 15:33:39 (208)

2000-10-09 15:33:39# 126. lþ. 5.1 fundur 31#B áhrif álvers á Austurlandi# (óundirbúin fsp.), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég lýsi vonbrigðum mínum með að hæstv. ráðherra skuli ekki sjá ástæðu til að gaumgæfa betur ákvörðunina um þessa fjárfestingu Íslandssögunnar. Ég vil benda á það að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef og sem grundvallast á fyrrnefndri skýrslu, þá mun verkefni af þessari stærðargráðu viðhalda þenslu í þessu samfélagi enn um sinn, og fram hefur komið t.d. frá Ara Edwald hjá Samtökum atvinnulífsins að miðað við slíkar aðstæður muni þörf á allra næstu missirum fyrir starfskrafta í landinu aukast um 10 þúsund. Er ekki ástæða, hæstv. ráðherra, að vanda til verka og gera sér grein fyrir heildarafleiðingum verkefnis af þessari stærðargráðu? Ef svarið er nei og það á að halda áfram án þess að skoða hluti, velta fyrir sér vísbendingum sem koma nú fram tel ég að það sé miður.