Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 16:11:36 (218)

2000-10-09 16:11:36# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[16:11]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég á von á því að þetta mál fái flughraðaafgreiðslu efh.- og viðskn. og framgang hér í þinginu miðað við yfirlýsingar hæstv. forsrh. í fyrra. Ég hef hins vegar dálitlar efasemdir um að málið nái fullkomlega utan um það sem því er ætlað. Mig langar til að bera fram spurningar í því sambandi.

Hér er talað um viðskiptabanka, einhvers staðar er talað um lánastofnanir og hv. þm. nefndi sparisjóði. En það er mikil þróun í gangi á þessum sviðum fjármálanna og fjölmargir að lána peninga, t.d. eru tryggingafélög og aðrir slíkir að lána mjög háar fjárhæðir um þessar mundir og hafa gert undanfarið. Lífeyrissjóðir hafa lengi lánað og ýmsir aðrir eru í lánastarfsemi. Menn verða þess vegna að velta því fyrir sér hvaða áhrif lagasetning af þessu tagi muni hafa. Menn hafa einnig rætt um að erlendir aðilar kæmu hugsanlega inn á þennan markað. Ef þeir þyrftu að safna sér um 8% eignaraðild þá er kannski ekki jafnvíst að nokkurn tímann komist á slík samkeppni.

Mín spurning er þessi: Verður ekki að hafa einhvers konar heildstæða löggjöf sem kemur inn á sambærileg viðskipti hjá öllum ef menn ætla á annað borð að leiða í lög takmarkanir af þessu tagi? Ég skil hins vegar vel og hef samúð með því sjónarmiði að gæta þurfi þess að einstakir fjármálaaðilar hafi ekki of mikil ítök í þessu þjóðfélagi.