Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 16:17:07 (221)

2000-10-09 16:17:07# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[16:17]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ekki sé ástæða til að óttast svo mikið fyrir fram hluti af þessu tagi, meira að segja áður en menn hafa skoðað þá til botns eða rætt þá, að menn falli frá því að hugleiða það að gera slíkar breytingar. Ég vona að það sé ekki tilgangur málflutningsins hér, að reyna að hræða menn frá því að taka það í alvöru til skoðunar hvort setja eigi í löggjöf, íslenska að sjálfsögðu því að við erum ekki að setja lög fyrir England eða Norður-Ameríku, takmarkanir af þessu tagi. Til hvers? Til þess að tryggja dreifða eignaraðild í mikilvægustu fjármálastofnunum okkar sem þjónusta almenning og íslenskt atvinnulíf. Um það snýst þetta mál og það þarf ekkert að flækja það mikið. Þetta snýst um að tryggja dreifða eignaraðild í stóra einkabankanum, sem er orðinn til, þannig að hann lendi ekki í klónum á einum eða fáeinum hákörlum, þetta snýst um það að ef menn halda áfram að einkavæða ríkisbankana að tryggja sömuleiðis dreifða eignaraðild þar og ef menn háeffa nokkrar lánastofnanir sem enn eru í landinu í viðbót, þá verði líka reynt að tryggja það með slíkum lögum. En það breytir hins vegar ekki einhverri eignastöðu sem er hjá tryggingafélögum, stórmörkuðum eða lögmannsskrifstofum sem kaupa vísanótur og eru í þeim skilningi að lána fé o.s.frv., enda er það alls ekki ætlunin með frv.

Það eina sem ég held að þurfi að skoða og það er tekið fram sérstaklega í greinargerðinni og það kom einmitt út úr athugun okkar á þessum þáttum síðasta haust, að e.t.v. ættu mörkin að vera rýmri þegar í hlut eiga fjármálastofnanir, þjónustustofnanir á fjármálasviði sem eru í eign viðskiptabanka, sparisjóðs eða slíkra lánastofnana. Þannig er það víða gert erlendis að þó að takmarkanir séu á hámarkseign einstakra aðila í móðurfélaginu, þ.e. bankanum, þá mega þeir síðan eiga tilteknar þjónustustofnanir á fjármálasviðinu sjálfir, enda má segja að eignarhaldið sé þá dreift í gegnum móðurfyrirtækið. Tekið er fram sérstaklega í greinargerðinni að ástæða væri til að skoða þetta og það er prýðilegt verkefni fyrir hina virðulegu efh.- og viðskn. að taka þetta atriði sem og þau sem hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi til skoðunar samhliða afgreiðslu málsins í vetur.