Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 16:20:28 (223)

2000-10-09 16:20:28# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[16:20]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög góð spurning. Það var vissulega ekkert sjálfgefið hvar ætti að setja mörkin í þessum efnum. Ég skal fúslega viðurkenna að í sjálfu sér eru engin nákvæmnisvísindi á bak við það að velja þarna 8% að endingu. Ýmis rök hnigu í þá átt þegar farið var að skoða þetta og þetta borið saman við það sem þekkist erlendis, þá er yfirleitt um að ræða takmörk sem liggja einhvers staðar á bilinu frá 5% og upp í 12--15%. Það er oft haft til hliðsjónar við mörk af þessu tagi að þau liggi einhvers staðar í nágrenni við eða neðan við það sem þarf til að tryggja sér einn stjórnarmann í stjórnum viðkomandi fyrirtækja. Fyrir því eru í sjálfu sér augljós rök að ef mörkin væru það rúm að þau dygðu til þess að ná kannski tveimur mönnum í slíka stjórn, þá getur slíkur eignarhlutur á móti mjög dreifðri eignaraðild annarra tryggt óeðlilega mikil ítök í fyrirtækinu. Einhvers staðar þarna þarf í rauninni að finna hófið.

Það var líka ákveðin ástæða fyrir þessum mörkum að þau lágu vel ofan við stærsta einstaka eignarhlut einstaks aðila í íslenskum viðskiptabanka eða lánastofnun þegar frv. var flutt, þ.e. stærstu eignarhlutir í Íslandsbanka hf. eins og þeir voru um þær mundir lágu þarna undir mörkunum þannig að breytingin hefði ekki raskað eignarstöðu neins sem a.m.k. okkur flm. var kunnugt um að væri til staðar.

Ég held líka að annað sjónarmið sem kom fram í máli hv. þm. og var mjög réttmætt mætti vel koma til skoðunar í þessu samhengi og það er krossað eignarhald aðila sem eru ráðandi á öðrum sviðum atvinnulífs og er líka þekkt úr löggjöf sums staðar í nágrannalöndunum að hömlur eru á því t.d. hversu mikið tryggingafélag eða annar slíkur aðili sem er í skyldri starfsemi mætti eiga í hefðbundnum banka. Það mætti hin ágæta nefnd sem fer nú að hafa ærið að starfa einnig gjarnan hugleiða.