Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 16:32:40 (229)

2000-10-09 16:32:40# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þá ræðu sem hún flutti áðan. Ég leyfi mér að túlka orð hæstv. ráðherra þannig að það sé velvilji af hálfu ráðuneytisins að þetta mál sé skoðað áfram og það falli saman við þær yfirlýsingar sem hæstv. forsrh. hafði gefið áður um að málið þyrfti að skoða ofan í kjölinn og fá í það niðurstöðu.

Ég tel afar mikilsvert að þessi vinna er í gangi af hálfu ráðuneytisins og ég vona að ráðuneytið veiti efh.- og viðskn. aðgang að þeim gögnum sem hefur verið aflað og samvinna takist með þingnefndinni og ráðuneytinu við frekari vinnu málsins. Ég held að einboðið sé að þessu verði þannig háttað. Málið fór út til umsagnar á sl. vetri og efh.- og viðskn. hefur væntanlega skoðað það eitthvað talsvert þannig að eðlilegt er að reyna að halda þeirri vinnu áfram.

Ég leyfi mér líka að vera býsna bjartsýnn og ég tek þar undir með hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, að vel má túlka þær yfirlýsingar sem hér hafa birst í þá átt að vilji sé til þess að skoða það af mikilli alvöru að fara í aðgerðir af einhverjum toga til að tryggja betur en nú stendur dreifða eignaraðild. Það er alveg hárrétt sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að þar eru ýmsar mismunandi leiðir færar eða viðhafðar ef litið er til nágrannalandanna, allt frá þessum beinu takmörkunum í Noregi og Kanada og reyndar víðar og yfir í ýmis skilyrði og óbeinar aðgerðir sem eiga að ná fram sömu markmiðum í aðalatriðum, að hindra að einn eða fáir aðilar geti auðveldlega náð ráðandi hlut í svona mikilvægum fjármálastofnunum og beitt því eignarhaldi í sína þágu og jafnvel í þágu annarlegra hagsmuna sem ganga á skjön við hagsmuni innleggjenda og lántakenda í viðkomandi stofnunum. Ég vona því að þetta verði skoðað náið og er líka sammála því, herra forseti, að á meðan svo stendur er langeðlilegast að aðhafast ekkert frekar í sölu hlutabréfa í þessum fyrirtækjum.