Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 16:47:49 (237)

2000-10-09 16:47:49# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[16:47]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þetta hafa þegar á heildina er litið verið mjög jákvæðar umræður eða öllu heldur umræður þar sem fram hafa komið mjög jákvæðar undirtektir við það frv. sem hér er til umræðu um dreifða eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum.

Þannig var því líka farið þegar frv. var lagt fram fyrir um ári síðan. Þá urðu þeir margir til að taka undir með flutningsmönnum, hæstv. forsrh., og nú hefur hæstv. bankamálaráðherrann einnig tekið undir með flutningsmönnum um að markmið frv. þyrftu að ná fram að ganga og það hafa líka þingmenn úr stjórnarandstöðunni gert þótt menn hafi verið með ýmsar vangaveltur um hvaða leið sé best að fara.

Staðreyndin er sú að eignaraðild að fjármálastofnunum íslenskum hefur verið mjög dreifð. Um 280.000 manns hafa átt ríkisbankana, Búnaðarbankann og Landsbankann. (Gripið fram í: Einn aðili.) En ríkisstjórnin, sú ríkisstjórn sem nú situr og sú sem á undan sat, hefur hins vegar viljað þrengja þessa eignaraðild með því að koma þeim úr almannaeign og færa þessar fjármálastofnanir út á markaðinn. Menn hafa fundið ríkistengslunum við þessar fjármálastofnanir allt til foráttu, talið óheppilegt að stjórnmálamenn hafi tengsl inn í þessar stofnanir. Ég hef litið öðrum augum á það. Þetta fyrirkomulag, þessi eignaraðild þjóðarinnar hefur tryggt það að fulltrúar allra eða flestra viðhorfa í stjórnmálum hafa komið þar að málum en ekki aðeins úr einum flokki sem gerist því miður þegar stofnanir eru færðar út á markaðinn.

Mig langar til að spyrja hæstv. forseta hvort viðskrh. sé farinn úr húsinu.

(Forseti (ÍGP): Forseti mun láta kanna það. En samkvæmt tölvunni sem ég er með fyrir framan mig þá er viðskrh. í húsi.)

Ég vildi óska eftir því að viðskrh. yrði viðstödd þessa umræðu alveg til enda, sýndi málinu þá þolinmæði að vera við umræðuna, ekki síst í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að hún sé samþykkt meginmarkmiðum frv.

Ég var að nefna það að margir hafa fundið því allt til foráttu að ríkið ætti eignarhlut að fjármálastofnunum landsins og að stjórnmálamenn eða fulltrúar stjórnmálaaflanna í landinu kæmu að stjórnun þessara stofnana. Ég hef verið á gagnstæðri skoðun sjálfur og talið það reyndar lýðræðislegra að tryggja aðgang fulltrúa sem flestra sjónarmiða í þjóðlífinu aðgang að stjórnun þessara stofnana. Staðreyndin er sú að mjög mikil samþjöppun er að eiga sér stað í íslensku efnahagslífi. Við höfum kannski orðið mest vör við umræðu um samþjöppun í sjávarútveginum, en einnig á sviði verslunar. Smásöluverslunin mun vera komin, ég held, 60--70% undir einn dreifingaraðila. Nú er sú hætta fyrir hendi að þessir öflugu aðilar í viðskiptalífinu fari að fjárfesta í banka og bönkum og þá hugsanlega nýta sér þessar stofnanir eigin rekstri til framdráttar. Sú hætta er fyrir hendi.

Ég ætla að gera hlé á minni ræðu þar til hæstv. bankamálaráðherra er komin í salinn.

(Forseti (ÍGP): Forseti vill upplýsa að verið er að sækja hæstv. ráðherra. Ráðherrann er hér alveg á næsta leyti.)

Hæstv. bankamálaráðherra er komin aftur í þingsalinn. Ég þakka fyrir það að hæstv. ráðherra skuli sýna málinu þá þolinmæði að vera hér til enda umræðunnar.

Ég hef verið að gagnrýna einkavæðingu fjármálastofnana, tel að með því móti sé dregið úr lýðræðislegum yfirráðum yfir mikilvægum stofnunum í samfélaginu. Mig langar til að leggja á það áherslu að ekki eru alltaf eins skörp skilin á milli, hvað ég á að segja, efnahagsmálanna, félagsmálanna og peningamálanna og margir vilja láta í veðri vaka.

Þann 29. september var greint frá því í Morgunblaðinu, á viðskiptasíðu Morgunblaðsins, að stjórnendur Landsbanka Íslands og Íslandssíma hafi undirritað víðtækan samning um frekari eignafjárþátttöku Landsbankans í Íslandssíma, samkomulagið feli í sér fjármögnun og stefnumarkandi samstarf milli þessara félaga. Og það kom fram í þessari grein að í heild væri hér um að ræða fjármögnun að upphæð um einn milljarð króna. Greint var frá því hvernig þetta skiptist. Meðal annars kom fram að um væri að ræða útgáfu hlutabréfa. Og í viðskiptum Landsbankans við þetta símafyrirtæki, Íslandssíma, var gert ráð fyrir genginu 16. En í niðurlagi greinarinnar á viðskiptasíðu Morgunblaðsins, sem birtist 29. september, segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var gengi bréfa í Íslandssíma á gráa markaðnum um 10 í síðustu viku, í fyrradag var gengið komið í 13,5 og í gær urðu viðskipti á genginu 14. Enda þótt það sé lægra gengi en miðað er við í samningi Landsbankans og Íslandssíma hefur gengið engu að síður hækkað um 40% á um það bil viku. Ef miðað er við gengið 14 má ætla að markaðsvirði Íslandssíma sé hátt á sjötta milljarð króna.``

Ég vildi bara vekja athygli á þessu. Hér er verið að versla á genginu 16, en í reynd er það miklu lægra. Þarna er stór fjármálastofnun, Landsbankinn, að taka ákvörðun sem á sér, jú, peningalegar forsendur væntanlega en hefur mjög víðtæka, félagslega og efnahagslega skírskotun. Það væri fróðlegt að vita hvort handhafi stærsta hlutabréfsins, hæstv. viðskrh., hafi kynnt sér þetta eða þeir sem fara með hlutabréfið fyrir hönd hæstv. ráðherra hafi gert henni grein fyrir þessum viðskiptum og hvað þarna búi að baki. Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra upplýsti okkur um það við umræðuna. (Gripið fram í: Á einn bankann?) Nei, nei. Handhafi stærsta bréfsins í bankanum, þ.e. hæstv. ráðherra. (Gripið fram í: Einn?) Því miður er því þannig farið þegar opinberar stofnanir eru einkavæddar, gerðar að hlutafélögum, að byrjað er á því að mynda hlutabréf sem í sumum tilvikum, eins og með Landssímann, er eitt hlutabréf sem er sett undir einn ráðherra. Að vísu koma fleiri eignaraðilar að Landsbankanum, vissulega, þ.e. ríkið og fulltrúar ríkisins og aðrir einnig. Það væri fróðlegt að heyra vangaveltur hæstv. ráðherra eða útskýringar hennar á þessu og hvernig þessi umræða hafi farið fram.

Ég er að leggja á það áherslu að fjármálastofnanir eru stöðugt að taka ákvarðanir sem hafa félagslega og efnahagslega skírskotun. Þess vegna er ekkert undarlegt að menn vilji búa svo um hnúta að þarna sé tryggð dreifð eignaraðild, ekki síst í litlu hagkerfi eins og okkar, ef það gerist að þeir sem eru að fá peningana og völdin í sínar hendur í viðskiptalífinu, í vörudreifingunni eða í sjávarútveginum, eignast líka banka. Þess vegna fagna ég því að allir sem hafa tekið til máls telja æskilegt að reyna að ná þessu markmiði, að tryggja dreifða eignaraðild. Menn eru með mismunandi skoðanir á því hvort það sé gerlegt, hafa skírskotað til alþjóðavæðingar eða vilja fara aðrar leiðir. En almennt vilja menn reyna að ná þessu markmiði. Það er fagnaðarefni og ætti að verða veganesti með þessu frv. í efh.- og viðskn. þingsins.