Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 17:04:38 (240)

2000-10-09 17:04:38# 126. lþ. 5.9 fundur 8. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[17:04]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er a.m.k. þeirrar skoðunar að saga bankamála hér á Íslandi sé þess eðlis að stjórn stjórnmálamanna og stjórnmálaafla á þeim hafi ekki verið til góðs. Ég held, virðulegi forseti, að það sé mikilvægt að við vinnum okkur út úr því kerfi sem hér hefur ríkt um nokkuð langt skeið.

Ég velti því líka fyrir mér, virðulegi forseti, vegna þess dæmis sem hv. þm. nefndi hér áðan --- nú er ég ekki að gera athugasemdir við þetta dæmi, ég þekki ekki þetta einstaka dæmi --- hvort hugsanlegt sé að þarna búi eitthvað annað að baki en það eitt að tryggja hagsmuni bankans eins og mér virðist kannski að einhverju leyti liggja í orðum hv. þm. En ég spyr, virðulegi forseti: Hefði verið ástæða til að ætla að svona hefði verið stjórnað af þeim sem hefðu beina hagsmuni eða eignaraðild að bankanum? Hefðu þeir brugðist þannig við að það væri andstætt hagsmunum bankans?

Ég ítreka það að ég þekki ekki þetta dæmi og legg því ekki dóm á það. En spurningin er kannski hvort þetta dæmi hv. þm. sé einmitt um að mikilvægt sé að þeir sem eigi bankana fari með stjórnina og í þeim tilvikum sem ríkið heldur í taumana sé hagsmuna eigenda bankans ekki nægilega vel gætt.