Upptaka Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 17:17:08 (247)

2000-10-09 17:17:08# 126. lþ. 5.11 fundur 11. mál: #A upptaka Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[17:17]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Hér er mælt fyrir till. til þál. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að komið verði á viðræðum til að undirbúa upptöku svonefnds Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa.``

Hugmyndin um alþjóðlegan skatt á fjármagnsflutninga milli landa var sett fram í byrjun áttunda áratugarins, ég held að það hafi verið árið 1972, af Nóbelsverðlaunahafanum James Tobin, prófessor í hagfræði við Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Upphaflega markmiðið með slíkum skatti var að renna stoðum undir sjálfstæða efnahagsstefnu ríkja heims og draga úr gengissveiflum einstakra gjaldmiðla. Á síðari árum hefur Tobin-skatturinn einnig verið nefndur sem leið til að verja gjaldmiðla fyrir árásum spákaupmanna og til að fjármagna aðkallandi alþjóðaverkefni. Í stuttu máli má segja að útgangspunkturinn með slíkri skattheimtu sé að treysta efnahagslegt öryggi hvarvetna í heiminum.

Talið er að nú fari jafnvirði allt að 144.000 milljarða króna milli landa á degi hverjum og þar af eru yfir 80%, að því er talið er, hrein spákaupmennska. Umfang þessarar verslunar hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og nífaldaðist á árunum 1986--1998. Um 40% fjármagnsins fara hringinn í viðskiptaheiminum á þremur dögum og 80% komast aftur á byrjunarreit á aðeins einni viku. Ef við snúum þessu yfir í dollara og skoðum umfangið, en það voru íslenskar krónur sem áðan voru nefndar, þá ætla menn að gjaldeyrisverslun sé með 1.800 milljarða Bandaríkjadollara á dag, en til samanburðar er heildarverðmæti allrar vöru og þjónustu sem seld er í heiminum á ári 4.300 milljarðar. Þetta eru því geysilegar upphæðir sem hér er um að ræða.

Hér á landi hefur heildarvelta viðskipta með gjaldeyri aukist hröðum skrefum en samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands nemur heildarvelta þeirra sem mynda millibankamarkað með gjaldeyri hér á landi nú að jafnaði mun hærri upphæð mánaðarlega en allt árið 1994 og var heildarveltan á árinu 1999 níföld velta ársins 1994. Svo dæmi sé tekið var heildarveltan á árinu 1994 53 milljarðar en í janúar á árinu 2000 er hún 56 milljarðar.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að á þessu eru ýmsar skýringar og sumar mjög haldbærar. Ekki er þetta allt spákaupmennska, síður en svo. Það hefur færst í vöxt að íslenskir lífeyrissjóðir flytji miklar peningafúlgur úr landinu til að dreifa áhættu sinni og eru farnir að gera það á erlendri grundu ekki síður en í íslensku efnahagslífi. En þegar á heildina er litið engu að síður rímar þetta við þá þróun sem á sér stað annars staðar en það er mat þeirra sem best þekkja til í þessum heimi að spákaupmennskan hafi aukist mjög á síðasta áratug.

Segja má að áhugi á hugmynd James Tobins hafi vaxið mjög eftir fjármálakreppuna í Suðaustur-Asíu haustið 1997. Þá átti spákaupmennska drjúgan þátt í því að gjaldmiðlar Malasíu, Filippseyja og Indónesíu hrundu en kreppan teygði anga sína mun víðar, þar á meðal til Taílands, Suður-Kóreu og Japans. Í framhaldinu neyddust mörg ríkjanna til að taka gríðarlega fjármuni að láni til að fleyta sér yfir erfiðustu hjallana.

Í umræðu um hugsanlegan Tobin-skatt hefur verið miðað við 0,1--0,25% skatt eftir því hve upphæðin er há í hverju tilviki. Afraksturinn á heimsvísu gæti orðið á bilinu 8--24 milljarðar króna á ári hverju. Svo lág skattprósenta tryggir að skatturinn hefði ekki áhrif á langtímafjárfestingar en hamlaði samt sem áður gegn spákaupmennsku. Höfuðstóll spákaupmanna mundi rýrna hratt við að vera fluttur oft á dag og skattlagður í hvert skipti.

Nú þegar hafa bæði kanadíska þingið og ríkisstjórn Finnlands lýst yfir stuðningi sínum við hugmyndina en einnig hefur Tobin-skatturinn komið til umræðu á löggjafarþingum Bretlands, Frakklands og Bandaríkjanna, svo dæmi séu tekin. Tobin-skatturinn hefur ekki að neinu marki verið til umræðu hér á landi fram til þessa en víða um heim hefur hann komið til umræðu ekki aðeins á þjóðþingunum heldur í þjóðfélögunum almennt og í skoðanakönnun sem gerð var í Frakklandi ekki alls fyrir löngu kom fram yfirgnæfandi meirihlutavilji fyrir því að reynt yrði að skattleggja þessa fjármagnsflutninga og reyna að beina fjármagninu til verðugra verkefna og er þá sérstaklega horft til þriðja heimsins eins og ég vík að hér síðar.

Það skal tekið fram að þegar skattlagning af þessu tagi er annars vegar er að ýmsu að hyggja. Ýmsum spurningum er ósvarað, m.a. um hvernig innheimta beri skattinn, hver eigi að vera vörsluaðili teknanna og hversu langt sé hægt að ganga í samræmingu laga og reglna um slíkan skatt án þess að ganga á fullveldi ríkja. Flestir eru hins vegar sammála um að Tobin-skatturinn komi ekki að gagni nema um hann náist alþjóðleg samstaða. Ef ríki neita að leggja slíkan skatt á mun gjaldeyrisverslunin einfaldlega flytjast þangað. Hvað ráðstöfun teknanna af slíkum skatti snertir hafa málaflokkar á borð við hungur, ólæsi, friðargæslu, hreinsun jarðsprengjusvæða og brýn verkefni í umhverfismálum verið nefndir til sögunnar.

Ljóst er af framansögðu að nauðsynlegt er að fulltrúar allra ríkja heims komi saman til að ræða málið enda snertir það alla jarðarbúa með einum eða öðrum hætti. Því er hér skorað á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir upptöku málsins á alþjóðavettvangi.