Upptaka Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa

Mánudaginn 09. október 2000, kl. 17:25:52 (248)

2000-10-09 17:25:52# 126. lþ. 5.11 fundur 11. mál: #A upptaka Tobin-skatts á fjármagnsflutninga milli landa# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 126. lþ.

[17:25]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. flm. þessarar tillögu fyrir að vekja máls á þessu brýna máli á hinu háa Alþingi. Tobin-skattinn hefur sérstaklega borið á góma í umræðunni um stuðning við allra fátækustu ríki heims, ekki síst í umræðunni um niðurfellingu skulda þeirra 48 ríkja þar sem fátæktin er hvað sárust og mjög margir búa við örbirgð.

Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að á fundi svokallaðra G-8 leiðtoga í Okinawa í Japan fyrr á þessu ári þá mistókst þeim öllum átta í raun og veru að ræða þetta mál. Þetta var víst á dagskrá þar en mjög lítið varð úr efndum og í rauninni sigldi þetta allt í strand. En á G-8 fundinum í Köln árið 1999 samþykktu leiðtogarnir áætlun um að fella niður skuldir allra fátækustu ríkja í heimi og samkvæmt henni átti að verja jafnvirði 100 milljarða Bandaríkjadala til verkefnisins. Því miður hefur mjög lítið miðað fram á veginn í því verkefni þrátt fyrir að þrýstihópar og áhugamannasamtök um þessi mál hafi beitt sér mjög og ég verð að segja eins og er að maður er næstum úrkula vonar um að rætist úr í bráð.

Aðeins hefur verið varið 15 milljörðum dollara til verkefnisins sem ákveðið var að ráðast í á Kölnarfundinum en tíminn líður og skuldastaða fátækustu ríkja heims versnar frá degi til dags. Á þetta hefur Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, bent á opinberum vettvangi og leyfði sér að gagnrýna G-8 leiðtogana fyrir að standa ekki við gefin loforð um að létta skuldabyrði fátækustu ríkja heims.

Á meðal þess, eins og ég tók fram áðan, sem átti að ræða í Okinawa var tillaga um Tobin-skattinn svokallaða, um að setja örlítinn skatt á spákaupmennsku með fjármagn á heimsmarkaði og nota tekjurnar af slíkum skatti til að fella niður skuldir fátækra ríkja m.a. eða til þróunarsamvinnuverkefna og jafnvel til umhverfisverndar.

Þótt G-8 leiðtogarnir hafi brugðist í þetta sinn þá held ég að engin ástæða sé fyrir okkur að bregðast í þessu efni, okkur sem sitjum á hinu háa Alþingi, og því ber að þakka að vakið sé máls á Tobin-skattinum. Mér finnst tillögugreinin líka orðuð með þeim hætti að um þetta ættu menn að geta sameinast, þ.e. að komið verði á viðræðum um upptöku skattsins. Það er að sjálfsögðu alveg ljóst að hér yrði líklega um flókna framkvæmd að ræða og það ber ekkert að draga úr því en annað eins hefur nú verið gert á alheimsfjármálamarkaði. Ljóst er að ná þarf alþjóðlegri samstöðu um málið þannig að það geti orðið að veruleika. Ísland getur að sjálfsögðu lagt sitt til málanna með því að samþykkja tillögu sem þessa á Alþingi. Með því höfum við í raun og veru tækifæri til að hafa forgöngu ásamt öðrum ríkjum um að koma þessu brýna máli á dagskrá í alþjóðasamfélaginu.

Meira hef ég ekki um þetta mál að segja að sinni, hæstv. forseti, en endurtek þakkir mínar til hv. flm.