Innanlandsflug

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 13:39:07 (253)

2000-10-10 13:39:07# 126. lþ. 6.93 fundur 39#B innanlandsflug# (umræður utan dagskrár), samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[13:39]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég fagna að sjálfsögðu hverju tækifæri til að ræða þessi mál á hinu háa Alþingi og skýra stöðu samgöngumálanna og ekki síst hvað varðar innanlandsflugið sem hefur verið í langan tíma í mikilli kreppu. Hv. þm. sem hér talar fyrstur talar eins og hann hafi ekki haft nokkra hugmynd um að vandi væri á höndum hjá þeim sem reka flug á Íslandi. Það er mikið ábyrgðarleysi. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þá staðreynd að samgöngumynstur landsins hefur gjörbreyst. Hv. málshefjandi var einn fjölmargra sem fögnuðu ákaft áformum um jarðgöng til Siglufjarðar og einnig er þeim áfanga var náð að komið var bundið slitlag alla leiðina til Siglufjarðar en ég veit að hv. málshefjandi hefur mjög velt fyrir sér samgöngum til þess staðar. En hvað þýðir slík samgöngubót fyrir bæjarfélag á borð við Siglufjörð? Ekki er nóg með að vegurinn batni stórlega heldur hefur vetrarþjónusta Vegagerðarinnar stórbatnað á örfáum árum.

Síðustu tvö ár, og það eru dæmi um við hvaða vanda er að etja, voru samtals áætlaðar 623 flugferðir til Siglufjarðar. Þar af var felld niður 231 ferð eða tæplega 40% vegna veðurs. Það gefur augaleið að erfitt er að reka flugsamgöngur við aðstæður sem þessar. Nú er svo komið að ekki er lengur stundað áætlunarflug til Siglufjarðar. Það er mat Íslandsflugs að ekki sé grundvöllur fyrir því flugi og lagði félagið því áherslu á að þjóna Siglufirði með tíðu flugi til Sauðárkróks og bjóða farþegum upp á akstur til Siglufjarðar. Það hefur verið til sérstakrar skoðunar í ráðuneytinu.

Viss þversögn er fólgin í þeirri staðreynd að eftir því sem flogið er á færri staði innan lands þeim mun fleiri virðast farþegarnir í innanlandsfluginu verða. En jafnframt verður æ skýrara hvaða leiðir bera sig og hverjar ekki. Ástæðan er einföld. Eftir því sem boðið er upp á tíðari flugferðir til og frá helstu þéttbýlisstöðum og eftir því sem þessir þéttbýlisstaðir eru í betra vegasambandi við nærliggjandi byggðalög eru fleiri sem nýta sér flugið. Tíðni og öryggi í áætlun virðist skipta sköpum.

Forsvarsmenn Flugfélags Íslands hafa skýrt frá þeirri áætlun félagsins að áfram verði flogið frá Reykjavík til Ísafjarðar, Akureyrar, Egilsstaða, Hafnar og Vestmannaeyja. Jafnframt tilkynnti félagið að það mundi hætta flugi til jaðarbyggðanna út frá Akureyri. Vegna þessa ákvað ég fyrr á árinu að efna til útboðs nokkurra flugleiða innan lands og horfa þá sérstaklega til þeirra staða þar sem flogið er út frá Akureyri. Áður hafði verið boðið út flug frá Akureyri til Grímseyjar, frá Reykjavík til Gjögurs og milli Ísafjarðar og Vesturbyggðar og allt eru þetta útboð sem ganga út á það að standa að ríkisstyrkjum. Ég taldi ekki vera forsendur fyrir því að styrkja flug til Húsavíkur vegna þess hversu góðar samgöngur eru við Akureyri um landveg og átta flugferðir daglega frá Akureyri til Reykjavíkur. Vegasamgöngur við Húsavík eru mjög góðar og vegalengdin á milli ekki nema rúmir 90 km. Því taldi ég ekki réttlætanlegt að bjóða út flug til Húsavíkur í þessum pakka. Aftur á móti tel ég rétt að hafa Siglufjörð inni í þessu útboði með vali hvort flogið væri frá Akureyri eða frá Sauðárkróki með tilliti til þess að Akureyrarleggurinn og svo hins vegar Sauðárkróksleggurinn eru leggir sem bera sig. Ég tel að það sé til þess fallið að styrkja innanlandsflugið sem heild að skipuleggja flugið á þá staði þar sem vel gengur. Þetta breytir þó engu um að við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að gríðarlegar fjárhæðir hafa verið og munu verða lagðar í að bæta samgöngur á landi og bættar samgöngur á landi hljóta að hafa mikil áhrif á samgöngur í lofti og það er staðreynd. Ekki er eðlilegt að krefjast bæði betri vega og ætlast til þess um leið að áfram sé haldið uppi ríkisstyrktu flugi til staða sem geta verið og eru í góðu vegasambandi við áætlunarflugvelli eins og er um Akureyri og Húsavík.

Hinn 23. þessa mánaðar verða opnuð tilboð í flugleiðir út frá Akureyri til Þórshafnar, Vopnafjarðar, Egilsstaða, Ísafjarðar og Siglufjarðar. Jafnframt er boðið út sjúkraflug á landinu öllu. Vegna þeirra fyrirspurna sem hv. þm. bar upp vil ég segja að flugleiðsögugjaldið hefur enn sem komið er ekki haft nokkur áhrif á innanlandsflugið. Það er ekki farið að valda útgjöldum hjá flugfélögunum svo nokkru nemi og engin áform eru um að hækka það gjald. Við þurfum að breyta lögum ef hækka ætti gjaldið og engar tillögur eru í þinginu um það.