Innanlandsflug

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 13:46:38 (255)

2000-10-10 13:46:38# 126. lþ. 6.93 fundur 39#B innanlandsflug# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Skjótt skipast veður í lofti í innanlandsflugi á Íslandi. Skammt er síðan óheft samkeppni hélt innreið sína með verðhruni en það stóð skamman tíma. Kostnaður hefur aukist og er verð á eldsneyti þar drýgst á metunum. Þegar gengisáhrif bætast við nemur þessi kostnaðarauki um allt að 100 millj. kr. hjá Flugfélagi Íslands á einu ári. Launahækkanir hafa einnig áhrif en launakostnaður er allt að 40% kostnaðar í þessari grein. Opinberar álögur hafa einnig hækkað í kjölfar leiðarflugsgjalda sem hefur verið gert að aðalatriði í þessari umræðu. Háar öryggiskröfur eru einnig gerðar og það skal tekið fram að leggja ber áherslu á að halda þeim. Rekstrarhagræðing í flugi með útboðum má ekki undir neinum kringumstæðum vera á kostnað öryggismála.

Það er einnig staðreynd að farþegum hefur farið fækkandi vegna bættra samgangna á landi og einnig hefur farþegum fækkað á einstökum flugleiðum vegna aukinnar tíðni og samkeppni við nálæga flugvelli. Þetta hefur sett flug til nokkurra staða á landinu í uppnám, þeir eru hins vegar þannig settir að samgöngur á landi koma ekki undir neinum kringumstæðum algjörlega í stað flugsins. Sú leið hefur verið farin að bjóða út flug með ríkisstyrkjum til nokkurra staða. Önnur leið er vandfundin til þess að tryggja þessar samgöngur.

Stuðningur við flugið í formi styrktra útboða eða lækkun á opinberum álögum eru þau tæki sem ríkisvaldið hefur í höndunum til að fást við þessi mál. Það væri að mínu mati rétt skref að skoða heildaráhrif skattlagningar á samgöngukerfið í heild því skórinn kreppir víðar að en í fluginu og má þar nefna áhrif olíuverðshækkana á þungaflutninga. Þar er um stórmál að ræða.