Innanlandsflug

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 13:52:33 (258)

2000-10-10 13:52:33# 126. lþ. 6.93 fundur 39#B innanlandsflug# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það er athyglisvert að þær miklu framfarir sem orðið hafa í samgöngum á landi hér á Íslandi á undanförnum árum skuli vera flokkaðar undir mistök af hálfu stjórnvalda. Það er alveg nýtt af nálinni. Auðvitað hefur það haft mjög mikil áhrif að vegakerfið hefur stórbatnað á undanförnum árum. Það hefur haft megináhrif á það hvernig flugið hefur þróast.

Flug þróaðist hratt á Íslandi vegna þess að samgöngukerfið á landi var svo ófullkomið að ekki var annarra kosta völ. Þegar þessar flugsamgöngur höfðu þróaðast nokkuð lengi var ljóst að þegar vegakerfið mundi batna þá yrðu forsendur fyrir flugsamgöngum veikari. Þó að það sé rétt sem hér hefur komið fram að miklar sviptingar hafi orðið í innanlandsfluginu eftir að flug var gefið frjálst 1997 þá voru þeir veikleikar sem fram komu í flugkerfinu löngu þekktir. Það var löngu vitað að fjölmörgum flugleiðum var haldið uppi, annars vegar með því að flytja tekjur til þeirra frá betri flugleiðum innan lands en einnig með því að flytja tekjur frá millilandaflugi til að halda uppi flugleiðum innan lands. Þegar vegakerfið fer batnandi eins og það hefur gert mjög hratt á undanförnum árum er óhjákvæmilegt að þessi mál verði tekin til endurskoðunar. Einmitt það er verið að gera nú og stjórnvöld hafa brugðist við þessu með eðlilegum hætti.

Það liggur fyrir að ákveðnir staðir eru svo einangraðir að það verður og er fullkomlega eðlilegt að taka til athugunar að styrkja þá til flugsamgangna. Í öðrum tilfellum eru flugsamgöngurnar í mikilli samkeppni við landflutninga og ekki gefið að íbúar þeirra staða muni einu sinni vera ánægðir með ríkisstyrk til að halda uppi lágmarksflugsamgöngum. Þeir munu einfaldlega taka þann kost að fara á næsta flugvöll þar sem ferðir eru tíðari, sem er grundvallaratriði í sambandi við flugsamgöngur, og taka þar með ákvörðun um það.