Innanlandsflug

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 13:54:47 (259)

2000-10-10 13:54:47# 126. lþ. 6.93 fundur 39#B innanlandsflug# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Áætlunarflug innan lands á að vera hluti af almenningssamgöngum og það er því á ábyrgð stjórnvalda að halda uppi flugi til þeirra staða sem vegna fjarlægðar eða annarra aðstæðna verða að nota flugið til samgangna. Um langt árabil hefur ríkt óvissa og skipulagsleysi í innanlandsfluginu. Ástæðurnar eru margar en erfiðleikar í rekstri á flugi á fámennustu áætlunarleiðum er aðalástæðan. Því hafa þau flugfélög sem áður höfðu sérleyfi gefist upp í samkeppninni og nú má heita að eitt flugfélag sé allsráðandi í innanlandsfluginu. Við þessar aðstæður getur sá sem er einn á markaðnum ráðið því til hvaða staða flogið verður og tilkynnt breytingar með litlum fyrirvara. Af sömu ástæðum hefur verð á flugfargjöldum innan lands hækkað mjög á skömmum tíma.

Það er sársaukafullt fyrir okkur sem búum úti á landi að bera saman innanlandsfargjöld við verð á ferðum á milli landa og heimsálfa. Fólk sem býr við þær aðstæður að þurfa að nota flug til að sinna erindum sínum má búa við mikla óvissu um framtíð flugrekstrar frá þeim flugvelli sem það hefur notað fram til þessa. Þetta á ekki bara við um Siglufjörð heldur miklu fleiri staði og má nefna Höfn í Hornafirði og Húsavík í því sambandi.

Bætt vegakerfi hefur verið nefnt sem aðalástæða þess að fækkað hefur í innanlandsfluginu en benda má á að á Höfn og á Húsavík hefur farþegum fjölgað ár frá ári og svo getur átt við um fleiri staði þar sem líklegt er að áætlunarflug verði lagt af í nánustu framtíð.

Eina raunhæfa lausnin er að líta á flugið sem hluta af almenningssamgöngum landsins og styrkja flug til þeirra staða sem nauðsynlegt er að hafi áætlunarflug. Það þarf að setja áætlunarflug inn í byggðaáætlun og samræma forsendur og stuðning í innanlandsfluginu á fámennari flugleiðum.