Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 14:06:40 (264)

2000-10-10 14:06:40# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um stefnu Íslands í alþjóðasamskiptum. Þetta er 4. mál þingsins og á þskj. 4. Flutningsmenn ásamt mér eru aðrir hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að hagsmuna Íslands verði best gætt með því að landið standi utan efnahagsbandalaga og ríkjasambanda en hafi við þau sem besta samvinnu með sérsamningum án aðildar. Þannig verði sjálfstæð og óháð staða landsins nýtt til að treysta samskiptin við ríki og markaði beggja vegna Atlantshafsins og við aðra heimshluta.

Vegna EES-samningsins og annarra framtíðarsamskipta við Evrópusambandið verði af Íslands hálfu leitast við að þróa þau í átt til tvíhliða samninga um viðskipti og samvinnu.

Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vinna með ríkisstjórninni að nánari útfærslu slíkrar stefnumótunar.``

Herra forseti. Hér er um að ræða endurflutning á tillögu sem lögð var fyrir síðasta þing en varð þá ekki útrædd. Tillagan er endurflutt óbreytt, þ.e. tillögugreinin sjálf er óbreytt en greinargerðin hefur verið endurbætt og aukið talsvert við hana, m.a. í ljósi umræðna og upplýsinga sem fram hafa komið frá því að tillagan var lögð fram á síðasta þingi. Má þar t.d. nefna skýrslu hæstv. utanrrh. um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi og fleiri pappíra sem fram hafa komið. Einnig hefur verið rætt um ýmsa aðra þætti íslenskrar utanríkisstefnu á þeim tíma sem síðan er liðinn og tekið er mið af því í greinargerðinni.

Herra forseti. Tillagan gengur út á það eins og heyra má af tillögugreininni, að móta almenna stefnu til næstu ára um það með hvaða hætti hagsmuna Íslands verði gætt í alþjóðasamskiptum. Meginhugsunin er ekki síst sú að reyna með slíku að eyða þeirri annars óvissu sem uppi er ef ekki liggur sæmilega skýrt fyrir í tilvikum eins og þeim sem lúta að samskiptum við Evrópusambandið, á hvaða grunni þau samskipti munu byggja á komandi árum til einhverra ára a.m.k. þannig að þeir sem í slíkum samskiptum standa og gæta eiga hagsmuna okkar viti a.m.k. að þessu leyti hvar þeir standa til næstu ára litið og hafi eftir því sem kostur er fast land undir fótum.

Það er eindregin skoðun okkar flutningsmanna að íslenska utanríkisstefnu eigi að sjálfsögðu að byggja á góðum samskiptum til allra átta en það beri á hinn bóginn að forðast að loka landið af innan hvers konar ríkjabandalaga. Það sé skynsamlegast að Íslendingar haldi óháðri stöðu sinni gagnvart efnahagsbandalögum og ríkjablokkum en leiti þess í stað eftir hagstæðum samningum við slíka aðila, hvort heldur er í Evrópu, Norður-Ameríku, Austur-Asíu og annars staðar þar sem það á við. Þannig getum við best fært okkur legu landsins í nyt og átt farsæl samskipti við marga heimshluta og alla heimshluta án þess að afsala okkur sjálfsákvörðunarrétti og forræði yfir náttúruauðlindunum. Slíkt væri hins vegar óhjákvæmileg afleiðing aðildar að Evrópusambandinu.

Herra forseti. Við teljum að Ísland hafi alla burði til þess að farnast áfram vel sem sjálfstæðu og óháðu ríki þótt smátt sé í þjóðbraut milli meginlanda. Af sömu ástæðum yrði landið hins vegar aldrei annað en jaðarsvæði í stórum efnahagsbandalögum á borð við Evrópusambandið þar sem stjórnstöðvar og miðstöðvar liggja langt frá landi okkar. Náttúruauðlindir landsins eru miklar, bæði til lands og sjávar og ef okkur tekst að viðhalda yfirráðum yfir þeim og koma í veg fyrir mengun og ofnýtingu geta lífskjör hér á landi verið eins og þau gerast best í heiminum.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að mörgum smærri þjóðum hefur tekist vel að nýta sér sérstöðu sína á grundvelli sjálfstæðis eða mikillar sjálfstjórnar. Þær gæta eigin hagsmuna á sjálfstæðum forsendum og gera smæð sína í hópi þjóðanna að styrkleika en ekki veikleika með sjálfstæðri rödd og sjálfstæðum vilja. Ef farið er yfir það þá er það staðreynd sem ekki verður hrakin að mörgum af smáþjóðunum jafnt í Evrópu sem t.d. í Asíu vegnar vel og eru í hópi þeirra sem bjóða upp á hvað best lífskjör í heiminum.

Herra forseti. Ef litið er til þróunar alþjóðaviðskipta má segja að hún einkennist af tveimur nokkuð mótsagnakenndum meginþáttum í senn. Það er annars vegar á ferðinni ákveðin tilhneiging til vaxandi blokkamyndunar og hins vegar viðleitni til alþjóðlegrar fríverslunar. Þannig eru nú þrjár meginviðskiptablokkir í heiminum sem oft takast á og býsna harkalega bak við tjöldin. Það er Evrópusambandið, Fríverslunarsamtök Norður-Ameríku eða NAFTA og hópur landa í Suðaustur-Asíu, ASEAN-hópurinn. Samtímis því að þessar blokkir glíma sín í milli og hafa tilhneigingu til að reyna að móta alþjóðaviðskiptaumhverfið með hagsmuni sína sérstaklega að leiðarljósi, eru í gangi viðræður sem miða að því að koma á alþjóðaskipan, alþjóðlegri fríverslun. Stundum setja menn allt af þessu tagi sem er að gerast um þessar mundir og þar með talda einnig tækniþróun eins og veraldarvefinn saman undir eitt samheiti og tala um alþjóðavæðingu. Þar er á köflum um harla ruglingslegan málflutning að ræða þar sem öllu ægir saman, annars vegar tæknilegum málum, hins vegar pólitískum og hugmyndafræðilegum og væri betur að menn aðgreindu það og létu hvern eiga sitt í því sambandi. Margt er vissulega jákvætt í þeirri þróun og má þar tiltaka bætta samskiptamöguleika á grundvelli nýrrar tækni, greiðan aðgang að upplýsingum og annað slíkt. En annað er mjög neikvætt og gætir nú vaxandi umræðu um og vaxandi gagnrýni á ýmsa neikvæða þætti svonefndrar alþjóðavæðingar og er það vel því að þar er svo sannarlega að mörgu að hyggja.

Herra forseti. Í greinargerð tillögunnar er allítarlegur kafli um Ísland og Evrópusambandið og rökstuðningur fyrir því sjónarmiði okkar að það sé ekki vænlegur kostur fyrir Íslendinga að stefna á aðild að Evrópusambandinu. Við fögnum því fyrsta lagi, herra forseti, að Danir eða danska þjóðin tók þá myndarlegu afstöðu sem hún gerði í kosningum fyrir skömmu að hafna frekari Evrópusamruna og upptöku evrunnar og mér segir svo hugur að þessi atburður, herra forseti, eigi eftir að hafa býsna mikil áhrif á þróun Evrópuumræðunnar í okkar heimshluta á næstu árum.

Við teljum sem sagt, herra forseti, að sú óvissa sem nokkuð hefur gætt í umræðum um þessi mál á undanförnum mánuðum og missirum sé skaðlegt ástand og henni beri að eyða eftir því sem kostur er, ekki með því að sjálfsögðu að málin geti ekki áfram verið til umræðu og skoðunar og að menn með opin augun og eyrun fylgist með því sem er að gerast. Ég hef engan mann á byggðu bóli heyrt andæfa því í sjálfu sér. En það þó að við ætlum okkur á komandi árum að fylgjast með atburðum í kringum okkur á þróun mála þarf ekki og á ekki að vera ávísun á að hér þurfi að ríkja algjör ringulreið, algjör óvissa, algjört stefnuleysi um á hvaða grundvelli við Íslendingar ætlum í þessu mikilvæga tilliti að gæta hagsmuna okkar á komandi árum. Og væri hægt að setja niður sæmilega samstöðu um meginlínurnar í þeim efnum þó ekki væri nema til fimm til átta ára í senn þá væri strax að því mikill fengur fyrir þá fjölmörgu aðila sem eiga í slíkum samskiptum eða eiga að gæta hagsmuna okkar í þessu tilliti.

[14:15]

Að sjálfsögðu má þar nefna í fyrsta lagi atvinnulífið og fyrirtæki sem stunda útflutningsviðskipti, innflutning eða útflutning í þessu sambandi, þar má nefna utanríkisþjónustuna og stjórnmálalífið, þar má nefna félagasamtök af ýmsum toga og allan almenning sem nyti að sjálfsögðu góðs af því eftir atvikum að þarna væri um einhverja meginstefnumótun að ræða.

Herra forseti. Ef farið er í örstuttu máli yfir meginrökin annars vegar sem færð eru fram með því að aðild að Evrópusambandinu geti verið hagstæð okkur Íslendingum og hins vegar rökin gegn því, eins og þau vissulega og vel að merkja koma okkur tillögumönnum fyrir sjónir, þá er það eftirfarandi:

Röksemdir með aðild teljum við aðallega vera tvenns konar. Það eru annars vegar það sem við köllum nauðhyggjurökin, þ.e. að allir aðrir séu að ganga í Evrópusambandið, að Norðmenn kunni að gera það, að EES-samningurinn sé að verða ónýtur og við eigum bara engan annan kost. Þessum röksemdum og skyldum má einu nafni gefa nafnið nauðhyggjuröksemdir. Þær gera ekki ráð fyrir því að við eigum að ganga í Evrópusambandið af því að það sé í sjálfu sér endilega mjög æskilegt eða að við viljum það heldur bara að við séum einhvern veginn meira og minna neydd til þess. Við munum sennilega lenda þarna inn einhvern veginn með góðu eða illu og þá sé bara eins gott að gera það strax.

Hin röksemdin, sem vissulega er miklu gildari og eðlilegra að taka til málefnalegrar umfjöllunar, er sú röksemd að Íslendingar eigi að ganga í Evrópusambandið til að hafa þar áhrif, til að vera þar aðilar að ákvarðanatöku og hafa þar áhrif. Það er alveg gilt að fara yfir það hvort ekki séu fólgin nokkur rök fyrir slíku því án aðildar erum við að sjálfsögðu ekki við borðið í innsta hringnum þar sem ákvarðanirnar eru teknar þó að að vísu fari af því mjög tvennum sögum hvernig ákvarðanir eru yfirleitt teknar í þessu nefnda Evrópusambandi. En við þurfum þá um leið að spyrja okkur: Hverjir eru möguleikar Íslendinga á því í stækkandi Evrópusambandi að hafa raunveruleg áhrif og hvaða verði yrðu þau áhrif keypt? Við þurfum líka að svara því: Mundu þau áhrif sem við öðluðumst mögulega á alþjóðavettvangi í gegnum aðild að Evrópusambandinu vega upp þá sjálfstæðu rödd sem við missum í staðinn annars staðar á alþjóðavettvangi? Það er staðreynd sem verður ekki hrakin að við það að gerast aðili að Evrópusambandinu færumst við ef að líkum lætur inn í bakhópinn sem ein af smáþjóðum Evrópusambandsins og hættum að tala sjálfstæðri rödd fyrir okkur sjálf og semja um hagsmuni okkar á alþjóðavettvangi á mjög mörgum öðrum sviðum.

Hagsmuna okkar ætti þá samkvæmt því fyrirkomulagi að gæta innan frá í gegnum Evrópusambandið og við getum borið aðstæður okkar að þessu leyti ef svona færi, hvað varðar t.d. hagsmunagæslu á sviði sjávarútvegsmála og hafréttarmála, saman við það sem verið hefur.

Meginókostirnir að okkar mati eru þessir, og ég hef tæpast tíma til að nefna nema fyrirsagnirnar, herra forseti: Í fyrsta lagi er mikilvægast afsal sjálfstæðis og fullveldis og glötuð sérstaða sem færi með þessu.

Í öðru lagi skertir möguleikar til sjálfstæðrar efnahagsstjórnunar sem er óumdeilt.

Í þriðja lagi yrði hagsmunum sjávarútvegsins fórnað og það er í margvíslegu tilliti. Það lýtur bæði að því valdi sem mundi færast héðan til Evrópusambandsins, til Brussel. Það lýtur líka að sjálfstæðri samningagerð og sjálfstæðri hagsmunagæslu, sjálfstæðri rödd varðandi frekari þróun sviða eins og hafréttarmála og annarra slíkra þátta sem hafa verið okkur Íslendingum gífurlega mikilvæg gegnum tíðina á sviði þessa meginatvinnuvegar og nægir þar að benda á útfærslu landhelginnar.

Í fjórða lagi er alveg ljóst að aðild að Evrópusambandinu yrði að óbreyttum ástæðum og jafnvel enn frekar eftir að stækkun Evrópusambandsins verður orðin að veruleika áfall fyrir íslenskan landbúnað. Mögulega mundi ein grein hans, þ.e. sauðfjárræktin, sleppa sæmilega frá slíkum breytingum, þ.e. ef mönnum gengi vel að ná í styrki á grundvelli þess.

Í fimmta lagi nefnum við hagsmuni ferðaþjónustunnar sem yrði að mörgu leyti teflt í tvísýnu. Má þar nefna afnám tollfrjálsrar verslunar sem kæmi illa við ferðaþjónustuna, rekstur flug- og ferjuhafna o.s.frv.

Í sjötta lagi teljum við að margt í uppbyggingu Evrópusambandsins og í þeirri staðreynd að um fjarlægt og miðstýrt Brussel-vald yrði að ræða, sem ætti að taka margar mikilsverðar ákvarðanir fyrir okar hönd, að þar sé ekki í lýðræðislegu tilliti um framför að ræða.

Í sjöunda lagi lentum við inn fyrir varhugaverða tollmúra og gætum orðið nauðug viljug aðilar að deilum Evrópusambandsins í viðskiptalegu tilliti og það þyrfti ekki og væri síður en svo okkur til hagsbóta.

Í áttunda og síðasta lagi er ljóst að mikill kostnaður yrði því samfara fyrir Íslendinga að gerast aðilar að Evrópusambandinu, í kringum 8 milljarða kr. að líkindum við núverandi aðstæður og líklegt að sá kostnaður mundi vaxa verulega með stækkun Evrópusambandsins.

Þegar þetta, herra forseti, er allt saman lagt og einnig hafðir í huga aðrir þættir í alþjóðasamskiptum teljum við að þetta sé ekki ráðlegur kostur sem við eigum að eyða allt of mikilli orku í að hugleiða að óbreyttum aðstæðum.

Vegna mikilvægis málsins, herra forseti, leggjum við til að kosin verði sérstök þingnefnd, skipuð fulltrúum allra flokka til þess að vinna að þessu mikilsverða máli með framkvæmdarvaldinu. Við vísum í því sambandi, herra forseti, til þess fordæmis þegar á Alþingi starfaði svonefnd Evrópustefnunefnd Alþingis á árunum 1988--1990 í góðri þverpólitískri samstöðu og teljum vel tímabært að taka þá skipan mála upp á nýjan leik.