Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:21:39 (286)

2000-10-10 15:21:39# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður eflaust flesta að stefna Samfylkingarinnar í samskiptamálum varðandi ESB sé hér um bil að verða til og ég er viss um að það gleður kjósendur Samfylkingarinnar. En ég vil spyrja hv. þm. hvort hún telji ekki að þessi aðferðafræði framsóknarmanna og samfylkingarmanna um skoðun á hlutunum sé vegna þess að hvorki innan Samfylkingarinnar né Framsóknar sé samstaða um að menn feti sig þá leið að hefja vinnu til inngöngu í Evrópusambandið. Það væri gott að fá það skýrt fram hvort hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir telji að það eigi að hefja þessa vinnu --- grundvöll að því merkisplaggi sem er á næstu grösum að því er manni skilst --- hvort hún telji að það eigi að hefja þá vinnu sem miði að því að ganga í ESB. Nóg er af gögnunum sem liggja fyrir þannig að menn ættu að geta verið búnir að mynda sér skoðun fyrir alllöngu síðan því að pappírarnir eru í til metravís. Það vafðist ekki fyrir Dönum t.d. varðandi myntmálin að taka afstöðu til þess hvort þeir ættu að segja já eða nei, hvort þeir ættu að fórna dönsku krónunni eða taka upp sameiginlega mynt.