Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:24:01 (288)

2000-10-10 15:24:01# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., TIO
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Allmargir þingmenn hafa kastað sér út í innblásnar umræður um orðskýringar og þá fyrst og fremst um það hvað tillögugreinin sjálf merki. Ég verð að viðurkenna að sumt af því sem hér hefur verið sagt um hvað felist í tillögugreininni hefur komið mér á óvart.

Ég get ekki, þó að ég legði mig fram um það, lesið út úr þessari tillögugrein að lagt sé til að Íslendingar hætti þátttöku í alþjóðlegum samtökum eins og Sameinuðu þjóðunum eða Öryggissamvinnustofnun Evrópu. Það er erfitt að leggja þá merkingu í þetta orðalag. Ég verð að segja eins og er að ég taldi fullvíst að orðalagið efnahagsbandalög og ríkjasambönd væri valið beinlínis til þess að vísa til þeirrar óvissu sem er í dag um það hvernig Evrópusambandið er að þróast. Sumir innan Evrópusambandsins leggja áherslu á að Evrópusambandið þróist í átt til sambands sjálfstæðra ríkja sem fyrst og fremst eiga samvinnu um efnahags- og viðskiptamál en einnig um afmarkaða aðra þætti en afsala sér ekki fullveldi, a.m.k. ekki meira en nú þegar er orðið.

Það er t.d. ekki um það samkomulag innan Evrópusambandsins hvort það eigi að þróast í átt til ríkjasambands eða ekki. Þær yfirlýsingar sem við höfum heyrt nú alveg upp á síðkastið eru þess eðlis að vísað er í margar áttir. Framkvæmdastjóri Evrópusambandsins hefur margsinnis gert tilraun til þess að setja á dagskrá mjög nána samvinnu, nánast ríkjasamband eða ,,federation``, en á sama tíma er talið að kosningaúrslitin í Danmörku hafi veikt slíka hugsjón og í raun hafi Evrópusambandið fjarlægst þann draum sem settur var fram af Jacques Delors á sínum tíma og studdur eindregið af Helmut Kohl og François Mitterrand, með öðrum orðum að meiri líkur séu á því nú að Evrópusambandið verði laustengdara en áður var. Ég leit svo á að hér væri orðalagið við þetta miðað og það væri þess vegna í þessu orðalagi fyrst og fremst verið að tala um að Ísland stæði utan ESB. Þann skilning lagði ég í þetta og hef nú satt að segja ekki breytt um skoðun á því miðað við þessar upplýstu umræður sem hafa verið hérna í dag.

Á þessum skilningi grundvallast erfiðleikar mínir við að taka undir þessa tillögu vegna þess að ég bendi á það að við erum í mjög nánu samstarfi við Evrópusambandið. Við erum þátttakendur í viðskipta- og markaðssamstarfi Evrópusambandsins og innleiðum hér á hverju ári þær reglur sem verða til í Evrópusambandinu. Við erum ekki meðlimir í Evrópusambandinu en við erum engu að síður með samning sem sumir hafa líkt við aukaaðildarsamning við Evrópusambandið. Mér finnst því að orðalagið sem hér er notað í tillögugreininni veki efasemdir um að skynsamlegt sé fyrir okkur að vera í EES og að nauðsynlegt sé að þróa þau samskipti burt frá EES og í átt til tvíhliða samninga. Ég er sjálfur mjög sáttur við þá þróun sem hefur átt sér stað eftir að við gengum í EES. Ég tel að EES-samningurinn sé góður samningur sem hafi sannað gildi sitt og hef fyrir því t.d. yfirlýsingar frá utanrrn. að EES-samningurinn hafi sannað gildi sitt. Það kemur mjög skýrt fram einnig í skýrslu hæstv. utanrrh. að samningurinn hefur sannað gildi sitt.

Það er reyndar ekki hægt að segja á sama tíma að samningurinn hafi sannað gildi sitt og að hann hafi misst gildi sitt. Slíkar yfirlýsingar ganga ekki upp í mínum huga og ég hef lagt áherslu á það bæði í blaðagrein sem ég hef skrifað og einnig í málflutningi að menn fari varlega í yfirlýsingum um þessi mál. EES-samningurinn er í raun og veru það verkfæri sem Íslendingar hafa til að styrkja stöðu sína í samstarfi við ESB.

Það er ljóst að hvort sem við kjósum að viðhalda þessum samningi, gera á honum einhverjar breytingar ef hægt er ellegar þá að nálgast Evrópusambandið eða hugsanlega ganga inn í það í framtíðinni þá er þessi samningur það verkfæri sem við höfum. Sú staða sem hann skapar okkur er staða Íslands í slíkum samningaviðræðum hverjar svo sem þær verða.

Einnig er ljóst að núverandi ríkisstjórn hefur þá stefnu að viðhalda þeim samningi en ekki að ganga í ESB. Það er ekki á dagskrá hjá þessari ríkisstjórn að ganga í ESB og á meðan svo er er þessi samningur það verkfæri sem við Íslendingar höfum til þess að tryggja stöðu okkar í samstarfinu við ESB-löndin.

[15:30]

Það sem hins vegar kemur fram í tillögunni og ég býst við að mjög margir ef ekki allir hér í þessum þingsal ættu að geta verið sammála um er að afar mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga að tryggja okkur eins opna stöðu í heimsviðskiptum og mögulegt er en gæta þess jafnframt að aðlögunarhæfni og viðbragðsflýtir íslenska samfélagsins og viðskiptalífsins séu mikil, enda sker það úr um hæfileika nútímasamfélaga til að tryggja þegnum sínum sem best kjör og varanlega velferð.

Þess vegna get ég tekið undir það sjónarmið sem kemur fram hér, að vísu með allmiklum annmörkum, að það sé mikils virði fyrir Íslendinga að líta til allra átta og tryggja hagsmuni sína, alþjóðlega viðskiptahagsmuni sína í öllum heiminum. Við getum ekki lokað augunum fyrir því að annars vegar er verið að vinna að því á alþjóðlega vísu að bæta heimsviðskipti og bæta það umhverfi og þær reglur sem gilda um heimsviðskipti, hins vegar er verið að vinna að þessu með takmarkaðri hætti og það er ekki hægt að útiloka að upp komi verulegur ágreiningur og jafnvel vandræðaástand vegna mismunandi viðskiptahagsmuna stórra viðskiptablokka. Í þeim tilfellum eiga Íslendingar hagsmuna að gæta að alþjóðlegar viðskiptareglur séu sem opnastar og frjálsastar þannig að við getum gætt hagsmuna okkar alls staðar í heiminum og notfært okkur þann vilja sem íslenskir viðskiptaaðilar hafa til að stofna til viðskipta sem víðast í heiminum.