Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:36:02 (291)

2000-10-10 15:36:02# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt skilið að tillagan byggir á þeirri meginhugsun að aðild að Evrópusambandinu sé ekki heppilegur eða fýsilegur kostur fyrir okkur og kemur fram í rökstuðningi að við sjáum ekki neitt benda til þess að það breytist í fyrirsjáanlegri framtíð.

Nú er það að sjálfsögðu svo að slíkt er auðvitað ekki hægt að ákveða í eitt skipti fyrir öll um ókomin ár og alla framtíð. Það getur ekkert eitt Alþingi, jafnvel þó það vilji, með samþykkt bundið hendur komandi kynslóða, komandi meiri hluta á Alþingi Íslendinga einhvern tíma á næstu öld. Þannig er nú einfaldlega okkar stjórnskipun og þar af leiðandi hafa umræður um hvort með slíku sé verið að tala um stefnu til allrar framtíðar og um aldur og ævi ekki mikið upp á sig, ósköp einfaldlega vegna þess að slíkt stenst ekki stjórnskipulega ef út í það er farið að ræða málin á þeim nótum, en það er ekki verið að því hér.

Varðandi Evrópusambandið og vegna þess að hv. þm. nefndi að það væri að mörgu leyti árangursríkt þá hef ég oft sagt það sama í umræðum t.d. við kollega úr Evrópusambandslöndum. Ég tel ýmislegt ágætt í þessu samstarfi ríkjanna á meginlandi Evrópu, sérstaklega hvað varðar samskipti almennings og mögulega minnkaðar líkur á spennu og ófriði milli þessara aðila. Það er annað sem er mjög miður og mér fellur ekki allt í þessari hugmyndafræði eða uppbyggingu hvað varðar skort á lýðræðislegri ákvarðanatöku og annað því um líkt. En jafnvel þó svo að við séum þeirrar skoðunar að margt sé ágætt um þetta samstarf að segja fyrir hönd þjóðanna á meginlandi Evrópu er að sjálfsögðu ekki þar með sagt að það sé hagstætt okkur að ganga þar inn. Það getur verið alveg ágætt fyrir þessi lönd sem eiga sameiginleg landamæri og eru meira og minna ein menningarleg heild samskiptalega og viðskiptalega eins og Beneluxlöndin að hafa svona skipan en það er ekki þar með sagt að Ísland eigi erindi þangað inn.