Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:48:19 (294)

2000-10-10 15:48:19# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:48]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýddi með athygli á það þegar hv. þm., sem er einn af fremstu verkalýðsforingjum landsins, sagði að skoðun hans á EES-samningnum hefði ekkert breyst. Ég virði það fullkomlega en bendi honum hins vegar á að þessi skoðun hefur verulega breyst hjá mörgum skoðanabræðrum hans í verkalýðshreyfingunni frá því sem áður var. Ég bendi t.d. sérstaklega á formála fræðslubæklings sem Iðja gaf út fyrir félagsmenn sína um ávinning verkafólks af EES-samningnum og á aðfaraorð sem formaður Iðju, verkalýðsforinginn sá, skrifar um afstöðubreytingu sína í þeim efnum.

En ég ætlaði ekki að tala um það heldur hitt að nú hefur komið skýrt fram, ekki síst í orðum hv. síðasta ræðumanns, að það sem tillagan fjallar raunverulega um er ekki einu sinni uppsögn á EES-samningnum, hvað þá heldur á öðru samkomulagi sem við höfum gert um ríkjasamstarf eða samstarf á efnahagssviði, heldur er tillagan eingöngu um að segja nei við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það umræðuefni er vissulega á dagskrá. Ég fagna því að sú umræða skuli færast hingað inn í Alþingi en ég tel hins vegar að við eigum ekki að afgreiða það mál með því að segja fyrst nei en setja síðan nefnd í að skoða málið. Það eru auðvitað ekki skynsamleg vinnubrögð.

En þar sem tilgangur tillögunnar er einfaldlega og einungis þessi hvet ég hv. flm. til þess að nota tækifærið og breyta tillögugreininni þannig að hægt sé að fjalla um hana eins og þeir ætlast til að gert sé, þ.e. um efni hennar. Ég vona að þeir grípi það tækifæri, með tilvísun til orða hv. síðasta ræðumanns, og orði tillöguna þannig að ljóst sé hvað fyrir þeim vakir.