Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 15:56:35 (298)

2000-10-10 15:56:35# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[15:56]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að skiptar skoðanir eru um aðild Íslands að Evrópubandalaginu í dag. Ég býst við að það eigi við um flest félög, svo maður tali nú ekki um stéttarfélög eða pólitísk félög í þessu landi, nema þá kannski vinstri græna þar sem ekki er ágreiningur um þetta mál og á þeim forsendum finnst mér ástæða til að ræða þessa tillögu. Það hefur komið í ljós í skoðanakönnunum að þjóðin er afskaplega skipt í afstöðu sinni til þess hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu.

Þegar umræðurnar um EES fóru fram á sínum tíma var ég hér á Alþingi og tók þátt í stefnumótun Alþýðubandalagsins varðandi málið. Niðurstaðan þá var að vera á móti samningnum. Það fóru samt fram verulegar umræður í Alþýðubandalaginu áður en sú afstaða var tekin. Við kröfðumst þess líka að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál, töldum að þjóðin ætti erindi að því máli, hún ætti að hafa eitthvað um málið að segja.

Ég hef ekki breytt um þá skoðun að þjóðin hefði átt að fá að segja sitt álit hvað varðaði þennan samning. Ég tel að hann hafi í raun og veru verið ódýr leið til að fara fram hjá aðildarumsókn að EB með afar mikilvæg málefni sem þar voru innifalin. Í raun var allt valdaafsalið sem talað var um, völdin sem menn óttuðust að þeir mundu afsala sér með aðild að Evrópubandalaginu, innifalið í EES-samningnum varðandi þá þætti sem hann tekur yfir. Þannig tókst mönnum að selja, að mér finnst, afskaplega ódýra lausn sem gerði Íslandi mögulegt að taka þátt í Evrópusamstarfinu án þess að tekin yrði afstaða til þess að ganga í viðkomandi samband.

Þannig stendur málið. Ég tel reyndar að þeir sem vildu að þessi samningur yrði samþykktur hafi haft rétt fyrir sér varðandi efnahagsleg áhrif hans. Þau urðu a.m.k. jafnmikil eða meiri en þeir héldu fram. Ég held því líka fram að við höfum haft rétt fyrir okkur sem héldum því fram að valdaafsalið yrði meira en menn vildu vera láta. Það hefur líka komið í ljós.

Hér í gegnum Alþingi hafa runnið samþykktir og tilskipanir verið teknar í gildi á Íslandi í þvílíku magni að menn óraði ekki fyrir því þegar málið var afgreitt á hv. Alþingi. Þessi samningur er í gildi. Enginn talar um það hér að hann verði tekinn úr gildi. Það er heldur ekki markmiðið með þessari tillögu.

[16:00]

Ég held að í ljósi þessa hljóti menn að horfa á þá umræðu um aðild að Evrópusambandinu sem er fram undan. Ég er ósammála því að menn eigi með einhvers konar tillögu í Alþingi núna að ljúka þeirri umræðu. Hún á erindi til þjóðarinnar alveg eins og umræðan um EES. Ef menn einhvern tímann taka þá ákvörðun á hv. Alþingi að leggja það fyrir þjóðina að ganga í Evrópusambandið þá mun það auðvitað fara fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, um það eru allir sammála að þannig eigi að standa að málum.

Ég er hins vegar á þeirri skoðun að nokkuð sé til í því sem hér hefur verið sagt í dag um að Evrópusambandið sé að breytast mjög hratt og við þurfum á umræðunni að halda til að átta okkur á því hvað er fram undan og hvað er að gerast.

Evrópusambandið er að breytast úr því sem ég vil kalla stærsta kaupfélag í heimi í ríkjasamsteypu miðað við þær hugmyndir sem eru uppi núna. Það hlýtur auðvitað að kalla á það að menn velti því fyrir sér hvernig það muni líta út innan fárra ára ef menn taka afstöðu til þess að ganga þar inn, hvenær sem það verður gert.

Almenningur í landinu hefur greinilega skoðanir á þessu máli, það kemur fram í skoðanakönnunum, menn svara, menn víkja sér ekki undan spurningu þegar þeir eru spurðir um ESB nema tiltölulega fáir. Menn hafa afstöðu, annaðhvort með eða á móti. Ég tel því að full ástæða sé til að umræðan haldi hindrunarlaust áfram, menn taki ekki þá ákvörðun á hv. Alþingi að henni sé allt í einu lokið. Kannski finnst mönnum hún óþægileg, ég veit það ekki. Það út af fyrir sig skiptir ekki öllu máli, hún er að mínu viti nauðsynleg. Það er skýrt í mínum huga að við munum aldrei komast hjá Evrópusamstarfi. Við þurfum vissulega að sinna því í ekki minna mæli en við höfum gert fram að þessu og það er alltaf að vaxa. Til dæmis veit ég ekki betur en að þau samtök sem hv. þm. Ögmundur Jónasson veitir forstöðu séu í beinu formlegu samráði við sams konar samtök á þessu svæði. Og að ýmis mál fari til sameiginlegrar umsagnar sem þar er tekið þátt í að afgreiða. Þannig munum við áfram vera föst í slíkum samskiptum. En það er ekki af hinu vonda. Við hins vegar getum haft ýmsar skoðanir á því og haft mismunandi miklar áhyggjur af því hvernig þetta muni allt saman þróast.

En ég er sem sagt ósammála því að heppilegt sé fyrir þessi mál og þessa umræðu að við ljúkum henni með því að taka þá afstöðu í hv. Alþingi að við eigum að standa utan við öll slík bandalög af þessu tagi sem hér eru til umræðu. Þannig yrði þessi umræða í raun og veru bráðkvödd með samþykkt þessarar tillögu. Það tel ég ekki heppilegt. Ég held við eigum að láta okkur hafa það að taka þátt í þeirri umræðu sem er og verður í gangi um Evrópusambandið og þegar tími er kominn, ef hann þá kemur einhvern tímann, verður það lagt fyrir þjóðina hvort gengið verður í þetta samband.