Stefna Íslands í alþjóðasamskiptum

Þriðjudaginn 10. október 2000, kl. 16:55:47 (314)

2000-10-10 16:55:47# 126. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A stefna Íslands í alþjóðasamskiptum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 126. lþ.

[16:55]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur ekki verið staddur hér í húsi í dag og hefur ekki tekið þátt í þessari umræðu þannig að það er nokkuð sérkennilegt að komast að þeirri niðurstöðu að sérstakur samhljómur sé með málflutningi hans og okkar að þessu leyti. (Gripið fram í.) Tíðindin eru auðvitað þau að vandræðagangur Samfylkingarinnar hefur algjörlega afhjúpast í umræðunni þannig að leitun er að öðru eins.

Ég held að hvernig sem menn reyna að færa það í þann búning að það sé óskaplega málefnaleg og ábyrg afstaða að komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að hafa skoðun á málinu þá verði því seint gefið annað nafn en að það sé harla vandræðalegt í stórmáli af þessu tagi. Það er einnig óheppilegt að búa við það ástand lengi, hvort heldur sem er fyrir einstaka stjórnmálamenn í sínu hjarta, stjórnmálahreyfingar eða þjóð. Það er mikið betra að hafa einhverja línu í málinu eins og sagt er, svona eftir því sem nokkur kostur er.

Það er vissulega rétt að það er alltaf eitthvað að gerast í þessum efnum eins og víðar á alþjóðavettvangi og í heiminum öllum. Það er alveg dásamlegt að heyra menn stilla málum upp eins og mannkynssagan sé samsett af kyrrstöðutímabilum en síðan gerist allt í einu einhver ósköp. Það er alltaf eitthvað að gerast. Það hefur alltaf verið eitthvað að gerast í Evrópumálum svo lengi sem ég man eftir mér og fór að fylgjast með þjóðmálum. Ég sit í Evrópunefnd Norðurlandaráðs og fylgist ágætlega með þessu, m.a. í gegnum það starf. Það er vissulega ýmislegt að gerast sem er fróðlegt og áhugavert að fylgjast með en það skapar mér engin vandræði. Sú atburðarás skapar hamlar mér ekki í að hafa skoðun á þessu máli og hafa stefnu í málinu. Ég held hún eigi ekki að þurfa að gera það.

Annaðhvort geta menn bara ekki málið upp við sig eins í tilviki Samfylkingarinnar eða hitt, sem væri náttúrlega miklu verra, að menn langar eitthvað en þora ekki að segja það og breiða yfir það með því að segja: Við verðum að skoða þetta, athuga og kanna þetta, þetta er svo flókið og það er svo mikið að breytast o.s.frv. Það hefur mann auðvitað grunað stundum, því miður, að þeir sem í hjarta sínu eru komnir á þá skoðun að við ættum að ganga í Evrópusambandið treysti sér ekki til þess að segja það og breiði yfir það með málflutningi af þessu tagi.